Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vísar ásökunum um blekkingar á bug

01.03.2015 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir af og frá að kaupmenn hafi blekkt neytendur með gagnrýni sinni á tollavernd í landbúnaði. Hann segir háa tolla koma í veg fyrir að verð á innfluttum landbúnaðarafurðum lækki í verði.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði í hádegisfréttum að kaupmenn hefðu blekkt neytendur með gagnrýni sinni á tollavernd á búvörum.

„Það er bara alveg af og frá. Við höfum bara rætt staðreyndir sem eru uppi á borðinu varðandi þessa tollvernd á landbúnaðarvörum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það eru gríðarlega háir tollar á innfluttum búvörum, jafnvel búvörum sem eru ekki framleiddar á Íslandi, jafnvel búvörum sem er skortur á á Íslandi.“

Sindri sagði að álagning verslunarinnar á innfluttar búvörur væri meiri en álagning á innlendar búvörur. Þá hefði innflutningur á landbúnaðarafurðum verið með mesta móti í fyrra en þrátt fyrir það hefði verð ekki lækkað.

„Það er ekkert skrýtið af því að tollarnir eru áfram upp í 50 prósent af verðinu af kjúklingi til dæmis, milli 30 og 40 prósent af verðinu á innfluttu svínakjöti. Hann verður bara að biðja landbúnaðarráðherra að laga það ef hann vill að innflutningurinn lækki í verði,“ segir Ólafur. Hann bætir við að tollverndin minnki álagningu á innfluttar afurðir, ef eitthvað er, svo mikil sé samkeppnin. Þá njóti innlendar vörur forskots því neytendur treysti þeim.