Vísaði í Bin Laden fyrir árás á herstöð í Flórída

07.12.2019 - 04:06
FILE- In this Jan. 29, 2016 file photo shows the entrance to the Naval Air Base Station in Pensacola, Fla. The US Navy is confirming that an active shooter and one other person are dead after gunfire at the Naval Air Station in Pensacola. Area hospital representatives tell The Associated Press that at least 11 people were hospitalized. The base remains locked down amid a huge law enforcement response. (AP Photo/Melissa Nelson, File)
 Mynd: AP
Maður vopnaður byssu skaut þrjá til bana í flotastöð Bandaríkjahers í Pensacola í Flórída í gær. Þetta er önnur skotárásin í herstöð bandaríska sjóhersins í vikunni. 

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa greint frá því að árásarmaðurinn var sádiarabískur hermaður, sem var í þjálfun á herstöðinni. Auk þess að verða þremur að bana særðust átta til viðbótar. Árásarmaðurinn var loks skotinn til bana af herlögreglu. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá því á Twitter í gær að Salman konungur Sádi Arabíu hafi sett sig í samband við hann. Hann hafi fært Bandaríkjaforseta og fjölskyldum fórnarlambanna samúðarkveðjur. Þá kvað konungurinn gjörðir árásarmannsins ekki í samræmi við almenna Sádiaraba, sem þyki vænt um bandarísku þjóðina.

SITE samtökin, sem fylgjast með vefsíðum íslamista, segja árásarmanninn hafa lýst Bandaríkjunum sem illum. Segja þau jafnframt að hann hafi vitnað í Osama Bin Laden í skrifum sínum. Samtökin segja hann hafa skrifað á Twitter að hann stæði gegn hinu illa, og Bandaríkin hafi orðið að táknmynd illskunnar. „Ég hef ekkert á móti ykkur fyrir að vera bandarísk, ég hata ykkur ekki vegna frelsis ykkar, ég hata ykkur vegna þess að á hverjum degi styðjið þið, fjármagnið og fremjið glæpi gegn múslimum og öllum heiminum," hefur SITE eftir Twittersíðu árásarmannsins.

Rannsókn er hafin á tildrögum árásarinnar að sögn bandaríska sjóhersins. Á miðvikudag réðist bandarískur hermaður að félögum sínum á flotastöðinni í Pearl Harbor á Havaí. Þar varð hann tveimur að bana áður en hann fyrirfór sér.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV