Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vísað úr landi þrátt fyrir áfallastreitu

07.09.2017 - 19:35
Ellefu ára gamalli stúlku og fötluðum afgönskum föður hennar, sem komu til Íslands fyrir níu mánuðum, verður vísað úr landi þrátt fyrir að stúlkan sýni alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og geðlægðar eftir flóttann. Hún er ríkisfangslaus, því hún fæddist sem flóttamaður í Íran.

Feðginin, Abrahim og Haniye Maleki, flúðu frá Íran því stjórnvöld ætluðu að senda þau aftur til Afganistan. Útlendingastofnun hefur úrskurðað að þau verði send aftur til Þýskalands á næstunni, þaðan sem þau komu, á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Þau kærðu úrskurðinn sem var látinn standa.

Í sálfræðimati á stúlkunni kemur fram að hún þjáist af áfallastreitu vegna bátsferðar á flótta frá Íran og ofbeldisverkum sem hún hafi orðið vitni að. Öll óvissa sé til þess að auka á vanlíðan stúlkunnar en viðeigandi sálfræðistuðningur muni líklega bæta andlega líðan og lífsgæði hennar verulega. Úrskurðarnefnd útlendingamála segir að stúlkan geti vel fengið sálfræðiþjónustu í Þýskalandi.

Faðirinn er fatlaður eftir alvarlegt fótbrot og hefur þurft læknisþjónustu hér á landi. Úrskurðarnefndin segir að hann geti fengið læknisþjónustu í Þýskalandi.

„Vil betri framtíð fyrir dóttur mína“

„Ég flúði til Íran því ástandið í Afghanistan var ekki gott. Ég hef upplifað mikla erfiðleika á lífsleiðinni en eina framtíðin sem skiptir mig máli er framtíð dóttur minnar,“ segir Abrahim. „Ég óska þess að hún þurfi aldrei að vera í þeim aðstæðum sem ég var í. Ég vil bara að hún eigi gott líf, að hún fái að setjast hér að, að ganga í skóla og læra,“ segir hann.

Feðginin óttast mest að verði þau send aftur til Þýskalands muni þau fá synjun á dvalarleyfi þar og send aftur til Afganistan. Þau vita að það er ólíklegt, en óttast það samt. Þau eru einnig hrædd við að vera í Þýskalandi. Þar dvöldust þau í stórum flóttamannabúðum og Haniye fékk ekki að ganga í skóla, líkt og hún fær hér. Faðirinn, Abrahim, dvaldi á sjúkrahúsi í mánuð og á meðan var Haniye ein í flóttamannabúðunum án þess að þekkja þar neinn. Hún var þá tíu ára.

Var ein í flóttamannabúðum í mánuð

„Ég var ein í flóttamannabúðunum í Þýskalandi. Ég var inni í herbergi nema þegar ég þurfti að fá mér að borða. Ég fékk ekki að ganga í skóla heldur var bara í flóttamannabúðunum,“ segir Haniye. „Hér fæ ég að ganga í skóla og hef eignast vini og mér finnst þetta gott land og vinir mínir og fólkið hér er svo gott,“ segir hún.

Feðginin hafa ekki verið lengur á neinum stað en Íslandi síðan þau flúðu frá Íran. Þau segja að fólk á Íslandi hafi reynst þeim vel. Þau séu búin að eignast hér vini og Haniye líði vel í skólanum. Abrahim segir einnig að ef hann muni aftur þurfa að fara á sjúkrahús verði Haniye ekki ein. Mikilvægt sé fyrir hana að fá að festa rætur og það sé hún byrjuð að gera hér. Þá sé hún byrjuð í sálfræðimeðferð og mikilvægt að geta haldið henni áfram svo hún geti átt von um bjarta framtíð.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir