Vísað úr landi eftir 22 ár - en ekki börnunum

10.02.2017 - 09:54
Mótmæli gegn stefnu Donalds Trump í innflytjendamálum í Manilla, höfuðborg Filippseyja.
 Mynd: EPA
Guadalupe Garcia de Rayos, 36 ára tveggja barna móður, hefur verið vísað úr landi eftir 22 ára búsetu í Bandaríkjunum. Börn hennar tvö urðu eftir í Bandaríkjunum ásamt fjölskylduföðurnum. Guadalupe Garcia de Rayos kom til Arisóna-ríkis í Bandaríkjunum frá Mexíkó þegar hún var 14 ára gömul. Hún hefur starfað þar og búið síðan, ásamt manni sínum og tveimur börnum á unglingsaldri.

Árið 2009 játaði Garcia de Rayos að hafa notað fölsuð skilríki til að sækja um vinnu. Fjórum árum síðar var hún handtekin og tilkynnt að henni yrði vísað úr landi. Þeirri brottvísun var frestað samkvæmt stefnu Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Á miðvikudag mætti Garcia de Rayos á skrifstofu innflytjendayfirvalda í Arisóna-ríki, líkt og henni ber að gera einu sinni á ári. Þar var hún hneppt í varðhald.

Sjö mótmælendur voru handteknir í Phoenix, Arisóna í gærkvöld þegar þeir reyndu að koma í veg fyrir að Garcia de Rayos yrði flutt úr landi. 

Carlos Garcia, framkvæmdastjóri Puente Arizóna, samtaka sem berjast fyrir réttindum innflytjenda, sagði fjölmiðlum í gær að Garcia de Rayos væri komin til landamæraborgarinnar Nogales, Mexíkómegin landamæranna. Hún sé eitt af fyrstu fórnarlömbum Trumps. Fjölskyldu hennar hafi nú verið stíað í sundur.

Jaqueline Rayos Garcia, dóttir konunnar, sagði við fjölmiðla í gærkvöld að enginn eigi að þurfa að upplifa þann sársauka sem fylgir því að horfa upp á móður sína flutta á brott. Enginn ætti að þurfa að pakka ofan í ferðatösku fyrir mömmu sína. Þessu ætli hún að berjast á móti.

Mynd: EPA / EPA

Milljónum verður mögulega vísað úr landi

Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því í kosningabaráttu sinni að reka alla ólöglega innflytjendur úr landi. Þessi áform hafa mætt mikilli mótstöðu. Meðal annars hafa yfirvöld í fjölda borga lýst því yfir að ríkisstjórnin geti ekki vænst neinnar aðstoðar við að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Lögregla í nokkrum borgum hefur lýst því yfir að hún taki ekki þátt í slíkum aðgerðum.

Talið er að hátt í sex milljónir innflytjenda frá Mexíkó séu í Bandaríkjunum án tilskilinna leyfa.

Nýr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions, sór embættiseið í Hvíta húsinu í gærkvöld. Við það tilefni sagði hann að bandarísk stjórnvöld verði að binda enda á ólöglega fólksflutninga sem ógni almannaöryggi. Lögleysa hafi verið í innflytjendamálum undanfarin ár og hafi það ógnað almannaöryggi. Sessions er af mörgum talinn maðurinn að baki innflytjendastefnu Trumps.

25% vilja vísa fólki úr landi

Samkvæmt nýlegri könnun telja 25% Bandaríkjamanna að vísa eigi ólöglegum innflytjendum úr landi. 59% telja að fólk eigi að fá að búa áfram í Bandaríkjunum og eiga þess kost að verða ríkisborgari. 9% til viðbótar vilja að fólk fái að vera í landinu en eigi ekki að geta orðið ríkisborgarar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun Quinnipiac háskóla sem gerð var á landsvísu í Bandaríkjunum 5. til 9. janúar. 899 voru spurðir. Skekkjumörk voru 3,3 prósentustig.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi