Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vísa á bug að þeir skapi hættu við Geysi

16.03.2014 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsmaður Landeigendafélags Geysis vísar því á bug að þeir skapi hættu með því að takmarka aðgang að svæðinu um eitt hlið. Dýrt sé að hafa tíu manns í vinnu við að rukka inn á svæði. Þá kosti lögfræðingar og tækjabúnaður sitt.

Landeigendafélag Geysis hóf í gær að innheimta sex hundruð króna aðgangseyri að svæðinu. Starfólk félagsins tók sér stöðu við bæði hliðin að svæðinu þannig að enginn kæmist inn án þess að borga.

Mörg rútufyrirtækin hafa haft þann háttinn á að stoppa við efra hliðið að Geysissvæðinu, hleypa fólki þar inn og sækja það við neðra hliðið, en í gærkvöldi ákvað Landeigendafélag Geysis að loka efra hliðinu. „Við höfum í fyrsta lagi náttúrulega bara takmarkað mannafl, við erum bara 9 manns. Og við lærðum bara það í gær að við þurftum að einbeita okkur meira af því að geta afgreitt  þennan fjölda sem kemur um hádegisbilið,“ segir Garðar Eiríksson talsmaður Landeigendafélags Geysis ehf.

Þórir Garðarson sölu- og markaðsstjóri hjá Allrahanda segir þetta skapa hættu fyrir vegfarendur. „Okkur finnst þetta náttúrulega alveg fáránlegt, sérstaklega út af umferðaröryggi á svæðinu. Hér er stíf umferð og því miður er það þannig að það eru ekki allir sem virða hraðatakmarkanirnar og við sáum hér í morgun í gær að röðin við hliðið, þó það væri opið efra hliðið, hún var mikil og náði hérna yfir götuna og við erum soldið hræddir um að þetta verði ennþá meira kaós og endi bara með ósköpum,“ segir Þórir. Þessu vísar Garðar á bug. „Já já, að sjálfsögðu, markaðsfulltrúinn er að reyna að gera úlfalda úr mýflugu.“ 

Í dag létu flestir sig hafa það að greiða aðgangseyrinn, en sumir kvörtuðu undan því að gjaldið kæmi þeim að óvörum. 

Talið er að um eitt þúsund manns komi á hverjum degi til að skoða Geysissvæðið. Garðar telur að um hálf milljón króna hafi innheimtst í aðgangseyri í gær. „Það kostar nú bæði sitt að hafa 10 manns í vinnu eða jafnvel fleiri ef við þurfum að bæta við mannskap og það kostar líka að greiða lögfræðikostnaðinn ef þetta stendur í langan tíma,“ segir Garðar. Tækjabúnaður sé einnig mjög dýr.

Sumir ferðamenn voru ekki tilbúnir til að þess að borga, þar á meðal hópur Dana. „Maður sér þetta jafnvel ef maður situr inni í rútunni og þar er líka hlýrra,“ segir Freya Kjær Hansen, danskur ferðamaður. „Auðvitað gæti verið flott að fara inn á svæðið en þetta er næstum jafngott héðan.“