Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Virkjanir upp á 800 megawött undirbúnar

20.01.2013 - 13:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Tólf virkjanir sem nú eru í nýtingarflokki eru í undirbúningi, en mjög mislangt komnar. Sumar eru enn á undirbúningsstigi, meðan hönnun og rannsóknarboranir eru hafnar á öðrum stöðum.

Sextán virkjanakostir voru settir í nýtingarflokk í nýsamþykktri rammaáætlun. Landsvirkjun á sjö þeirra. Bjarnarflag og tvær virkjanir á Þeistareykjum eru nú í útboðshönnun og þá stendur verkhönnun yfir á þremur virkjunum í Kröflu. Vatnsaflsvirkjun í Blönduveitu er svo í umhverfismati. Þessar sjö virkjanir geta orðið allt að 450 megavött samtals.

Hjá HS Orku eru Eldvörp komin í umhverfismat, Sveifluháls á Krýsuvíkursvæðinu er á byrjunarstigi og þá er búið að veita leyfi fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar. Þessar þrjár virkjanir geta samtals framleitt allt að 220 megavött af raforku. Hinir tveir virkjanakostirnir, Stóra-Sandvík á Reykjanesi og Sveifluháls á Krýsuvíkursvæðinu eru hins vegar ekki í undirbúningi eins og er.

Þrjár virkjanir á Hengilssvæðinu eru einnig í nýtingarflokki sem eru á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Aðeins ein þeirra. Hverahlíðarvirkjun, er í undirbúningi en búið er að ljúka umhverfismati á henni. Hún á að vera allt að 90 megavött. Gráuhnúkar og Meitillinn, sem einnig eru í nýtingarflokki, eru ekki á dagskrá.

Þá er ein virkjun óupptalin, Hvalárvirkjun í Árneshreppi sem Vesturverk undirbýr, og er í skipulagsvinnu. Hún á að vera 30 megavött.
Samtals er því undirbúningur hafinn á tæplega 800 megavöttum af virkjunum sem nú eru í nýtingarflokki, en til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun 690 megavött. Undirbúningurinn er hins vegar mjög mislangt kominn og mörg ár, jafnvel áratugir, gætu liðið áður en sumar þeirra verða að veruleika - auk þess sem ekki er víst að allar virkjanirnar verði jafn stórar og stefnt er að.