Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

VIRK: Vantar 73 milljónir í fjárlagafrumvarpið

22.09.2018 - 08:23
Mynd með færslu
 Mynd: Virk
Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK segir í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að það vanti 73 milljónir til að framlag ríkisins til sjóðsins verði í samræmi við lög og samninga. Gert er ráð því í fjárlagafrumvarpinu að verja 739,5 milljónum króna til sjóðsins en framkvæmdastjóri VIRK segir að framlagið eigi að vera 812,5 milljónir króna.

VIRK rekur starfsendurhæfingarþjónustu fyrir þá sem hafa farið af vinnumarkaði vegna veikinda og slysa og þurfa aðstoð til að komast aftur út á vinnumarkað. Að jafnaði eru um 2.000 manns í þjónustu hjá VIRK en starfsemin er fjármögnuð með framlagi frá atvinnulífinu og lífeyrissjóðunum og þá kemur einnig framlag frá ríkinu. 

Í umsögn Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra sjóðsins, við fjárlagafrumvarp næsta árs kemur fram að á þessu ári hafi framlag ríkisins til VIRK numið 747 milljónum króna. Þar hafi verið miðað við 0,05 prósent af gjaldstofni tryggingargjalds.

Áætlaður stofn tryggingargjalds á næsta ári sé 1.625 milljarðar króna og 0,05 prósent af þeirri fjárhæð séu 812,5 milljónir. Engu að síður sé í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að verja 739,5 milljónum króna til VIRK og þarna muni um 73 milljónir. „Þetta þarf að laga til að framlag ríkisins til VIRK sé í samræmi við lög og samninga,“ segir í umsögn Vigdísar. 

Þá er í umsögninni bent á að ríkið greiði nú helmingi lægri hlut en atvinnurekendur og lífeyrissjóðir til VIRK þrátt fyrir upphafleg áform um jafna skiptingu milli þessara þriggja aðila. Atvinnurekendur og lífeyrissjóðir miði við iðgjaldsstofn og því sé eðlilegt að greiðslur ríkisins miðist við sama stofn. „Virk tekur á móti mjög stórum hópum einstaklinga í þjónustu sem aldrei hafa verið á vinnumarkaði. Þessir einstaklingar eru þar að auki oft að glíma við flókinn og alvarlegan vanda og þurfa langan tíma í þjónustu og dýr úrræði.“

Fram kom í fréttum RÚV í maí að um sjötíu prósent þeirra sem leiti til VIRK séu konur og að samsetning þess hóps sem leiti til sér aðstoðar væri að breytast. Til að mynda hefði fjölgað hlutfallslega í hópi háskólamenntaðra kvenna og þá hefði ungu fólki og þá sérstaklega ungum konum einnig fjölgað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV