Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Virðist ofsalega auðvelt að komast í hörð efni

09.04.2018 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Unnið er að fjármögnun á nýju vistheimili fyrir ungmenni sem eiga við mjög alvarlegan fíknivanda að stríða. Þetta segir Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla. Markmið vistheimilisins er að hjálpa krökkum að koma undir sig fótunum eftir meðferð. 

Funi segir að undirbúningur heimilisins gangi hratt en erfitt geti verið að setja á laggirnar nýtt meðferðarheimili. Í upphafi geti þau tekið við tveimur til þremur börnum. „Við verðum að byrja rólega.  Það er rosalega erfitt að starta einhverju svona. Í gegnum söguna þá hefur ekkert meðferðarheimili farið af stað og gegnið smurt fyrsta árið. Það hefur alltaf gengið hræðilega. Við þurfum að fara hægt,“ segir Funi í Morgunútvarpinu á rás tvö.

Heimilið er hugsað sem bráðabirgðalausn þar til nýtt meðferðarheimili verður opnað á höfuðborgarsvæðinu, í fyrsta lagi eftir tvö ár. Frá áramótum hefur þurft að vísa 20 börnum frá neyðarvistun á stuðlum vegna plássleysis. Funi segir að enn séu þó laus pláss á meðferðardeild. „Það eru alltaf sveiflur inn á neyðarvistun, það er bara eðli þeirrar starfsemi. Það þarf ekki mikið meira en eitt gott partí til að það hafi áhrif á neyðarvistunina. Varðandi plássleysi annars, þá er það ekkert áberandi. Það er ekki teljandi biðlisti inn á meðferðardeildinni hjá mér.“

Funi merkir harðari neyslu ungmenna og það þurfi að taka alvarlega. „Það virðist vera að þessir krakkar sem eru í neyslu, eru komin í ansi harða neyslu. Aðgengi virðist vera svakalegt. Það virðist vera ofsalega auðvelt að komast í efni, og hörð efni. Það er einhver gerjun. Þetta er það sem við fáum oft svona tilfinningu. Ég er ekki kominn með konkret tölur um þetta. Þetta kemur úr svo mörgum áttum, það er lögreglan, foreldrar og það eru við. Við þurfum að taka þetta alvarlega, greinilega.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV