Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Virðingin ekki fyrir hendi hjá körlum

Mynd: EPA / EPA

Virðingin ekki fyrir hendi hjá körlum

19.06.2019 - 06:44
Úrslitakeppni heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta stendur nú sem hæst yfir í Frakklandi og sennilega hefur keppninni aldrei áður verið sinnt jafn vel af fjölmiðlum á alþjóðavísu. Kvennaboltinn hér á landi og erlendis á þó enn langt í land með að njóta jafnréttis á við karlaboltann þegar kemur að aðstöðu, peningum og viðhorfi þeirra sem stjórna í knattspyrnuhreyfingunni.

Þetta segja þau Edda Garðarsdóttir, margreynd landsliðskona í fótbolta og þjálfari, og Kristján Guðmundsson knattspyrnuþjálfari. Kristján hefur um árabil þjálfað meistarflokkslið karla í efstu deild víða um land, en þjálfar nú í fyrsta sinn kvennalið í efstu deild. Spegillinn settist niður með þeim Eddu og Kristjáni og fyrst veltu þau fyrir sér muninum á íþróttinni eftir því hvort karlar eða konur stunda og spila hana. 

Munurinn felst í líkamlegum burðum

Edda:  Ég held að munurinn liggi í líkamlegum burðum í raun og veru. Það eru fleiri afreksíþróttamenn í kvennaboltanum núna og fleiri íþróttamenn að velja úr í öllum löndum því íþróttin er að ryðja sér tíl rúms alls staðar. Það er kominn góður grunnur um allan heim. Nú er leikurinn orðinn taktískari kvennamegin heldur en hann var.  Þegar þessar forsendur eru komnar þá er hægt að fara að huga meira að leikskipulagi. Það þarf meiri hugsun núna til þess að stjórna góðu fótboltaliði. Kvennaboltinn á sér styttri sögu en karlaboltinn. Mér finnst kvennaboltinn vera að sækja í sig veðrið og nálgast karlaboltann sem hefur verið meira í þessum pælingum einhverjum tugum ára á undan. 

Samanburður á röngum forsendum

Kristján: Þetta er sama íþróttin að öllu leyti nema líffræðilega. Þá er þetta alls ekki sama íþróttin. Það er það sem aðallega skilur að. Þegar verið er að bera saman fótbolta kvenna og karla þá er sífellt verið að horfa á og rugla saman líffræðilegum þáttum og svo færni. T.d. er meðalhæð markvarðar í kvennaboltanum 170 cm á meðan meðalhæð markmanns í karlaboltanum er 189 cm.  Þau eru að verja sama markið, sem er 244 cm. Það er alltaf verið að gera lítið úr markvörðum í kvennaboltanum eins og það sé jafn eðlilegt fyrir þær að verja markið eins og karlana. Þannig að munurinn liggur fyrst og fremst þarna.  Fólk er að bera saman kynin í að spila fótboltann á röngum forsendum. Fótboltinn í dag er og hefur verið upplegg karla og það eru karlar sem stjórna. Það er þar sem vandinn liggur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Edda Garðarsdóttir.

Konur betri og nákvæmari 

Nú eruð þið bæði með reynslu í þjálfun, Edda hjá konum og Kristján aðllega hjá körlum, en þú ert núna að þjálfa meistaraflokk kvenna í Stjörnunni. Er einhver munur á þessum tveimur hópum? 
Kristján: Það er enginn munur á viðhorfi til þess að æfa íþróttina hjá kynjunum. Það er það sem ég hef komist að þessa mánuði sem ég hef verið að þjálfa konur. Þær eru jafnvel enn betri og nákvæmari í að æfa og fara eftir þeim fyrirmælum sem sett eru upp. Það er enginn munur á hvernig kynin nálgast íþróttina. Það er kannski helst umhverfið sem þarf að fara að aðlaga sig að metnaði stelpnanna í fótboltanum. Ég er mest undrandi yfir og það hefur komið mér mest á óvart  hversu stutt á veg virðingin fyrir fótbolta kvenna er komin, bara alls staðar.  

Rugl að dramað sé meira hjá stelpum en strákum

Hvað um það sem heyrst hefur að það þurfi að nálgast stelpur öðruvísi en stráka. Það sé eitthvert drama í gangi hjá stelpum sem er ekki hjá strákum. Er þetta bara klisja og ranghugmyndir? 
Edda: Þetta er bara rugl. Strákar geta verið alveg jafn miklar dramadrottningar. Þeir eru stundum jafnvel lengur að greiða sér áður en þeir fara út á völl en stelpurnar. Ef þú ert með topp íþróttamann sem er á réttum stað andlega og með forgangsröðina sína rétta, þá er ekkert í vegi fyrir því að geta rætt við manneskjuna eins og toppíþróttamann. En það eru ekkert allir jafngóðir í því, jafngóðir í mannlegum samskiptum. Þetta á við leikmenn, þjálfara og strafsmenn í kringum liðið. 
Kristján: Það er aðeins öðruvísi sálfræði og félgagsfærni sem að þarf að beita til að þjálfa konur. Þær spyrja miklu meira en strákarnir og þær vilja fá allt á tært til þess að vita hvað þær eiga að gera. Strákarnir gætu bara sagt "já ókei" , hlaupa út á völlin og gert svo áfram sömu vitleysuna, en stelpurnar gera það ekki. Þetta er eitt einfalt dæmi. Þetta er aðeins öðruvísi, en mjög skemmtilegt og jafnvel skemmtilegra að vera með  konurnar en karlana. En ekki segja að ég hafi sagt þetta! (bæði hlæja). 

Mynd með færslu
Lærisveinum Kristjáns Guðmundssonar í ÍBV er spáð falli Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV
Kristján Guðmundsson.

Nánast ekkert fé til kvenna úr styrktarsamningi

Kristján, þú minntist í upphafi á að þér findist við ennþá vera stutt komin með að bera virðingu fyrir kvennaboltanum.  En erum við á réttri leið samt sem áður? 
Kristján:  Já eins og Edda minntist á í upphafi þá fór kvennaboltinn af stað mörgum áratugum á eftir karlíþróttinni. En þetta er á hraðri leið, sífellt að vaxa. Það sem stendur í vegi fyrir honum eru karlarnir sem stjórna. Við getum bent á styrktarsamninginn sem er við Pepsi Max deild karla og kvenna hérna heima. Þetta er sex ára samningur og við erum á þriðja ári. Það rennur nánast ekkert til kvennaboltans, eða til félaganna til þess að setja í kvennaboltann.

Þurfum að berja á þessum körlum

Kristján: Maður hefur spurt hvort ekki sé hægt að segja sig frá þeim samningi og finna aðra styrktaraðila sem sannarlega vilja styrkja kvennaboltann af því að fyrirtækin sjá að þar er jarðvegur fyrir að styrkja og fá jákvæða ímynd. En það er ekki hægt. Þetta er læstur samningur. Maður hélt að þetta væri eingöngu hérna á Íslandi, en nei nei. FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, er líka með svona samning, sex ára samning sem er læstur. Þar er bara kvenna HM sett inn í pakkann án þess að keppnin fái neitt. Þetta er mjög svipað og hér. Þannig að svona er þetta á alheimsvísu og við þurfum að berja á þessum körlum að sýna þessu meiri virðingu og skapa þessu betri farveg. 

Allir verða að taka höndum saman og sýna metnað 

Edda sérð þú fram á betri tíð? 
Edda: Já já. Bætingin undanfarin 10 ár er stórkostleg . Auðvitað taka svona stórar breytingar langan tíma. Ég held að þetta liggi líka hjá styrktaraðilum, eins og Kristján var að tala um. Ölgerðin gerir samning. Er það þá ekki þeirra sem eru að setja fé í eitthvert ákveðið verkefni að fylgja því eftir með stolti,  að dreifingin sé jöfn, að áherslurnar séu jafn sterkar fyrir bæði kynin? Væri ekki næsti stóri styrktaraðili efstu deildanna á Íslandi, hvort sem það er sami aðili eða annar, að setja metnaðinn í það, í þetta jafnrétti. Stór fyrirtæki eru að fá vottanir fyrir hitt og þetta, jafnlaunavottun, kynjahlutfall, setja stolt sitt í að jafna kynjahlutfallið í stjórnendastöðum og dreifingu starfa. Er þetta ekki partur af því?  Er þetta ekki framtíðin?

Það þarf að taka heildina ínn í þetta. Knattspyrnusambandið, sem sér um þetta stórkostlega utanumhald um þennan fótbolta á Íslandi og allt starfið sem unnið er hér á landi, sem er einstakt sama hvað hver segir, og félögin sem eru að byggja upp lið í efstu deildunum. Það þurfa allir að hugsa þannig. Að það séu áherslur innan félaganna, innan stjórn þeirra, í stjórn Knattspyrnusambandsins og síðan hjá styrktaraðilum íþróttanna.  Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að taka af skarið og breyta hlutunum.