Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Víravegrið kom í veg fyrir alvarlegt slys

02.07.2018 - 07:47
Víravegrið á Hellisheiði kom nýverið í veg fyrir að árekstur yrði mun alvarlegri en ella og jafnvel að bani hlytist af. Þetta sýnir myndband sem Samgöngustofa hefur birt af árekstrinum. Í fréttatilkynningu frá stofnuninni segir að 77 hafi slasast það sem af er ári í framanákeyrslum á vegum landsins – þegar einum bíl er ekið framan á annan – sem sé mun meira en á sama tímabili undanfarinn áratug. Þá hafi fimm látist í slíkum slysum það sem af er ári en þrír allt árið í fyrra.
Mynd með færslu

„Ljóst er að ef ekki hefði verið búið að setja vegrið þarna á milli hefðu afleiðingar þessa óhapps orðið mjög alvarlegt slys,“ segir í tilkynningu Samgöngustofu um myndbandið, sem sjá má með því að smella á spilarann hér að ofan. „Það hefði ekki verið hjá því komist að bifreiðarnar hefðu lent í framanákeyrslu á u.þ.b. 90 km hraða. Almennt gildir það viðmið að öryggisbúnaður, a.m.k. nýrra bifreiða, er ætlað að koma í veg fyrir banaslys á hraða sem er allt að 70km/klst.“

Aðskilnaður akstursstefna og uppsetning vegriða á Íslandi undanfarin ár hafi, líkt og myndbandið vitni um, bjargað fjölda mannslífa og komið í veg fyrir mjög alvareg slys. Enn sé þó eftir að ráðast í slíkt víða í vegakerfinu en ljóst að fjármagni sé vel varið til slíkra verkefna.

Í tilkynningu Samgöngustofu kemur ekki fram síðan hvenær myndbandið er en niðri í vinstra horni myndbandsins sjálfs sést dagsetningin 28. apríl.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV