Vinstriflokkar með forystu í Danmörku

Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radio
Skoðanakannanir fyrir þingkosningarnar í Danmörku 5. júní benda til þess að Jafnaðarmenn fái mest fylgi og líkur séu á að formaður flokksins Mette Frederiksen taki við forsætisráðherraembættinu af Lars Løkke Rasmussen. Kosningabaráttan er hafin, en Lars Løkke boðaði til kosninganna fyrr í vikunni.

Jafnaðarmenn kátir í upphafi kosningabaráttu

Það er ástæða fyrir Jafnaðarmenn að vera kátir, skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórnin falli og vinstriflokkarnir sem eru í stjórnarandstöðu fái meirihluta. Eins og staðan er nú hefur rauða blokkin, vinstri flokkarnir, nokkuð forskot á hægriflokka, bláu blokkina. Þrettán flokkar bjóða fram í þingkosningunum níu flokkar áttu fulltrúa á síðasta þingi.  

Frederiksen vinsælli en Lars Løkke

Kannanir benda jafnframt til þess að Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna og forsætisráðherraefni rauðu blokkarinnar, njóti talsvert meiri stuðnings en Lars Løkke, forsætisráðherra. Frederiksen lá heima með magakveisu þegar boðað var til kosninga og gat ekki tekið þátt í fyrstu kappræðum í sjónvarpi. Skiljanlega var hún örg vegna þess en er nú mætt til leiks.

Innflytjendur og eftirlaun

Búist er við að helstu mál kosningabaráttunnar verði málefni innflytjenda, loftslagsvá og réttur vinnulúinna til að fara fyrr á eftirlaun. Jafnaðarmenn lögðu fyrr í vetur fram tillögur um að fólk sem væri lúið af langri erfiðisvinnu mætti hætta fyrr en aðrir. Stjórnarflokkarnir hafa nú svarað með eigin tillögum. 

Ný könnun sýnir litlar breytingar

Könnun sem gerð var fyrir Danmarks Radio bendir til að rúmlega 28 prósent kjósenda hyggist kjósa Jafnaðarmenn og flokkurinn bæti við sig tveimur prósentustigum frá kosningunum 2015. Venstre, flokkur Lars Løkkes Rasmussens tapar tveimur prósentustigum samkvæmt könnuninni. Stjórn Lars Løkkes er minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins.

Danski þjóðarflokkurinn í erfiðleikum

Danski þjóðarflokkurinn er í vanda, búið er stofna tvo flokka sem eru lengra til hægri við þjóðarflokkinn. Þetta eru Nýi borgaraflokkurinn og Stram kurs, eða Hörð stefna. Samanlagt eru þessir flokkar með 5,5 prósent og fylgi Danska þjóðarflokksins hefur minnkað úr tuttugu og einu prósenti í tæp fjórtán. Þessir flokkar leggja höfuðáherslu á að takmarka flutning útlendinga til Danmerkur. Leiðtogi Danska þjóðarflokksins, Kristian Thulsesen Dahl, segist þó bjartsýnn á gott gengi.

Of snemmt að afskrifa Lars Løkke

Þó að rauðu blokkinni sé spáð meira fylgi minna stjórnmálaskýrendur á að Lars Løkke sé gamall refur og reyndari í stjórnmálum en Frederiksen. Það kom í ljós í kappræðum leiðtoganna áður en boðað var til kosninganna. Henrik Qvortrup, stjórnmálaskýrandi Ekstrablaðsins sagði þá að Mette Frederiksen hefði verið gjörsigruð. Það er því enn óvíst hvort ástæða verði fyrir stjórnarandstöðuna að hrópa húrra að kveldi 5. júní.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi