Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vinstri og hægri ekki úrelt hugtök í pólitík

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstri og hægri eru ekki úrelt hugtök í stjórnmálum. Þetta segir formaður Vinstri grænna. Vinstristefnan geti verið lausn á helstu viðfangsefnum samtímans, svo sem vaxandi ójöfnuði, loftlagsbreytingum og áskorunum í lýðræðislegri umræðu.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ í dag. Í ræðu formanns flokksins, Katrínar Jakobsdóttur, kom meðal annars fram að slitnað hefði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna við aðra flokka vegna þess að VG hafi ekki viljað fara í ríkisstjórn nema að vera viss um að geta byggt upp innviði samfélagsins; heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra og öryrkja og samgöngur, og að ná árangri í loftslagsmálum og náttúruvernd.

Vinstri græn hafi viljað leggja á auðlegðarskatt, hærri fjármagnstekjuskatt, hækka veiðigjöld á stórútgerð og kolefnisgjald og setja komugjöld á ferðamenn. Þarna hafi skilið á milli vinstri og hægri í pólitík. „Vinstristefnan er svo sannarlega ekki úrelt lausn á viðfangsefnum samtímans. Því hver eru viðfangsefni samtímans? Í fyrsta lagi er það vaxandi ójöfnuður sem ógnar félagslegum stöðugleika í samfélögum um heim allan. Í öðru lagi eru það loftslagsbreytingar þar sem hlýnun jarðar á eftir að ógna vistkerfum um heim allan og á líklega eftir að bitna einna helst á fátækari þjóðum þessa heims,“ sagði Katrín.

„Vaxandi ójöfnuð á Vesturlöndum má beinlínis rekja til stjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar þar sem skattar á hina ríkustu hafa verið lækkaðir og skattkerfið hefur verið flatt út þannig að hlutfallslega hefur skattbyrðin orðið þyngri á tekjulægri hópa en léttari á tekjuhærri og efnameiri hópa. Við sáum það þegar auðlegðarskattur var látinn falla niður en á sama tíma var skattur á mat hækkaður en sú skattahækkun bitnaði fyrst og fremst á tekjulægri hópum. Veiðigjöld á stórútgerðina voru lækkuð og skattur á matvæli hækkaður.“