Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokkur stærst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokkurinn mælast með mest fylgi allra flokka rúmri viku fyrir kosningar, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Vinstri-græn mælast með rúmlega 23 prósenta fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 23 prósenta fylgi. Munurinn er innan skekkjumarka. Litlar breytingar verða á fylgi flokka frá síðasta Þjóðarpúlsi en fylgi Bjartrar framtíðar fer úr þremur prósentum í rúmt eitt prósent.

Samfylkingin mælist með rúmlega þrettán prósenta fylgi og Píratar tæplega ellefu prósenta fylgi. Fylgi Miðflokksins mælist rúm níu prósent og Framsóknarflokksins rúm sjö prósent. Viðreisn og Flokkur fólksins njóta samkvæmt könnuninni stuðnings tæpra sex prósenta kjósenda hvor flokkur. 

Björt framtíð myndi falla af þingi samkvæmt þessu. Fylgi flokksins fer úr þremur prósentum í rúmlega eitt prósent og hefur aldrei mælst minna í könnunum Gallup. Aðrir flokkar mælast með samanlagt hálfs prósents fylgi.

Samkvæmt þessu fengju Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokkurinn fimmtán þingsæti hvor flokkur. Samfylkingin fengi níu þingsæti, Píratar sjö og Miðflokkurinn sex. Framsóknarflokkurinn fengi fimm þingsæti samkvæmt þessu og Viðreisn og Flokkur fólksins fengju sitt hvora þrjá þingmennina.

Ef úrslitin yrðu í takt við þessa könnun yrðu miklar breytingar á þingstyrk einstakra flokka. Sjálfstæðismenn myndu missa sex þingmenn af 21. Vinstri-græn myndu bæta fimm þingmönnum við þá tíu sem flokkurinn hefur nú. Engin leið væri til að mynda tveggja flokka stjórn.

Þingmönnum Pírata myndi fækka úr tíu í sjö og þingmönnum Framsóknarflokksins úr átta í fimm. Viðreisn fengi innan við helming núverandi þingmanna, þrjá af sjö, og þingflokkur Bjartrar framtíðar myndi þurrkast út. Samfylkingin myndi þrefalda þingstyrk sinn, fara úr þremur þingmönnum í níu. Tveir flokkar kæmu nýir inn á þing, Miðflokkurinn með sex þingmenn og Flokkur fólksins með þrjá.

Niðurstöðum þessarar könnunar svipar til nýjustu könnunar MMR að því leyti að ekki er marktækur munur á Sjálfstæðisflokki og Vinstri-grænum. Í þeirri könnun mældust báðir flokkarnir með minna fylgi en í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, milli nítján og tuttugu prósent. Þar mældist Samfylkingin með tæpra sextán prósenta fylgi - og reyndar innan skekkjumarka við Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokkinn. 

Síðasta könnun 365 miðla er talsvert frábrugðin nýja Þjóðarpúlsinum. Þar mældust Vinstri-græn með 27 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 22 prósenta fylgi. Miðflokkurinn, Píratar og Samfylkingin mældust þar með tíu til ellefu prósenta fylgi en aðrir með minna.

Könnun Gallup var gerð dagana 13. til 19. október. Heildarúrtaksstærð var 2.870 manns og þátttökuhlutfallið 59,2 prósent í þessari netkönnun. 

Leiðrétt: Þingmannafjöldi Viðreisnar og Flokks fólksins hefur verið leiðréttur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV