Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vínsölufrumvarp gangi ekki nógu langt

06.11.2014 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Vínsölufrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna gengur of skammt, segir Félag atvinnurekenda í umsögn til Alþingis um frumvarpið. Þar segir að með frumvarpinu sé lagt til að færa smásölu áfengis úr einokunarumhverfi í fákeppnisumhverfi matvörumarkaðarins.

Í umsögninni segir meðal annars að órökrétt sé að flytja smásölu áfengis í matvöruverslanir nema bann við áfengisauglýsingum sé afnumið um leið. Gera verði ráð fyrir að stórir aðilar á matvörumarkaði muni ráða miklu um hvaða vörur seljast. Þess vegna nytu framleiðendur og innflytjendur ekki lengur jafnræðis sem ÁTVR beri skyldu til og geti ekki brugðist við því með auglýsingum til að koma vöru sinni á framfæri. Þetta telur Félag atvinnurekenda að kæmi sérstaklega hart niður á smærri framleiðendum og halla myndi verulega á hagsmuni smærri brugghúsa á landsbyggðinni. 

Í umsögninni er einnig gagnrýnt að loka eigi sterkt áfengi inni á bak við eða undir búðarborðum og slíkt sagt afturför. Þá sé óljóst hvaða verslanir megi selja áfengi og hverjar ekki. Þannig sé óljóst hvort gert sé ráð fyrir sérverslunum með áfengi og það sagt algjör forsenda þess að neytendur hafi áfram aðgang að breiðu vöruúrvali og sérfræðiþjónustu við kaup á áfengi.