Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vinsældir Macrons dvína

18.11.2018 - 05:07
Erlent · Frakkland · Kannanir · Evrópa
epa06087218 French President Emmanuel Macron (L) and First Lady Brigitte Macron after attending the traditional military parade as part of the Bastille Day celebrations in Paris, France, 14 July 2017. The Bastille Day, the French National Day, is held
Frönsku forsetahjónin Emmanuel og Brigitte Macron. Mynd: EPA
Vinsældir forsetans Emmanuel Macron fara dvínandi í heimalandinu. Er nú svo komið að aðeins fjórðungur Frakka er ánægður með störf hans, sé miðað við nýlega könnun Ifop sem birt er í Journal du Dimanche. 

Niðurstaða könnunarinnar er birt á sama tíma og nærri 300 þúsund mótmæltu hækkandi eldsneytisverði í Frakklandi. Hún var gerð undanfarna viku og svöruðu nærri tvö þúsund manns könnuninni.

Aðeins fjögur prósent aðspurðra sögðust mjög ánægð með störf Macrons, og um 21 prósent sagðist að mestu leyti ánægt. Hins vegar sögðust 34 prósent vera frekar óánægð með forsetann og 39 prósent mjög óánægð. Þar með fylgir Macron í fótspor forvera sinna. Kjósendur hafa verið fljótir að snúast gegn forsetum landsins, þannig var aðeins fimmtungur ánægður með störf Francois Hollande eftir sama tíma við völd og Macron, og um 44 prósent ánægð með Nicolas Sarkozy.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV