Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinnutími sá sjötti stysti á Íslandi

06.09.2019 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Á Íslandi var sjötti stysti meðalársvinnutími fólks á vinnumarkaði af aðildarríkjum OECD í fyrra. Fólk vann að meðaltali 1.469 vinnustundir á ári hér á landi. Það eru tæpar sex klukkustundir á dag, ef miðað er við 248 virka daga að hátíðisdögum frádregnum.

Meðalársvinnutíminn var stystur í Þýskalandi eða um 1.363 stundir. Í Danmörku vann fólk næstfæsta tíma eða 1.392, í Noregi vann fólk 1.416 stundir og í Holland 1.433 stundir. Finnar unnu mest norrænna þjóða eða 1.555 stundir á árinu. Mbl.is greindi fyrst frá. 

Hér á landi vann fólk að meðaltali 120 stundum meira en annars staðar á Norðurlöndum. Á vef Samtaka atvinnulífsins segir að ársvinnutíminn hafi styst um 140 stundir á Íslandi á tíu árum, frá 2008 til 2018. 

Fólk vinnur mest í Mexíkó eða 2.148 stundir að meðaltali á ári. Fólk vinnur næstflesta tíma í Kosta Ríka, 2.121 stundir, og þar á eftir í Kóreu, 2.005 vinnustundir. 

Framleiðni yfir meðaltali á Íslandi

Framleiðni á Íslandi var um fimmtungi meiri en að meðaltali meðal OECD-ríkja. Framleiðni jókst á árunum 2008 til 2018 um 2,7 prósent hér á landi. Mest jókst framleiðni í Austur-Evrópuríkjunum og á Írlandi á þessum árum en áttunda mesta aukningin á Íslandi. Framleiðni í Evrópusambandsríkjum jókst að meðaltali um 1,2 prósent. Samanburður á landsframleiðslu á hverja unna vinnustund í kaupmáttarleiðréttum bandaríkjadollurum leiðir þetta í ljós.

Kaupmáttur meðalárslauna mestur hér á landi í fyrra

Í gær var greint frá því að kaupmáttur meðalárslauna hafi verið mestur á Íslandi í fyrra af OECD-ríkjunum, eða tæplega átta og hálf milljón króna. Þá kom þar fram að meðalárslaunin hefðu verið lægst í Mexíkó. 

Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, segir það virkilega jákvætt fyrir launafólk að bæði sé hér á landi hæsti kaupmáttur meðalárslauna og jöfn tekjudreifing. Nú, þegar hægi á hagkerfinu og greinendur geri ráð fyrir samdrætti á árinu, sé mikilvægt að vera skynsöm og reyna að vernda þessa góðu stöðu. 

Stytting vinnuvikunnar í umræðunni

Rætt hefur verið um styttingu vinnuvikunnar að undanförnu og það borið á góma í kjaraviðræðum.  Frumvarp þess efnis, þar sem lagt er til að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 35, hefur verið lagt fram þrisvar sinnum á Alþingi óbreytt. Nú síðast í fyrra, þegar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði það fram í þeirri von, að með styttingu vinnuvikunnar, mætti bæta lífskjör og draga úr ójafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þá var Ísland í 33. sæti af 38 löndum innan OECD þegar kemur að jafnvægi á milli vinnu og frítíma. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að ætti að leggja áherslu á að fækka yfirvinnutímum, fremur en styttingu vinnuvikunnar. Það væri leiðin til að koma á jafnvægi milli vinnu og heimilislífs. 

Þeir sem aðhyllast styttingu vinnuvikunnar halda því fram að með því að vinna skemur, en um leið betur, megi auka framleiðni þjóðarinnar. Ríkið og Reykjavíkurborg hafa undanfarin ár átt í samstarfsverkefnum við BSRB um tilraunir með styttingu vinnuvikunnar. Meginniðurstaða tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar er sú að andleg og líkamleg líðan starfsmanna er betri, starfsánægja eykst og skammtímaveikindi minnka.