Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vinna við að einfalda regluverk hafin

02.09.2013 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Of flókið regluverk bitnar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, segir forsætisráðherra. Vinna er hafin við að einfalda regluverk í atvinnulífinu.

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að endurskoða regluverk atvinnulífsins og minnka skrifræði. Markmiðið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði settar án þess að jafn íþyngjandi kvaðir verði felldar burt. Fjöldi fólks sótti hádegisverðarfund forsætisráðuneytisins og Viðskiptaráðs um einföldun regluverks í dag. 

„Hættan við regluverk sem verður of flókið er að það fari í rauninni að hafa öfug áhrif,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. „Menn fari annað hvort að sneiða hjá því eða einfaldlega leggi ekki í að stofna og reka fyrirtæki. Og þetta bitnar náttúrlega sérstaklega á litlu fyrirtækjunum sem hafa ekki fjármagn til að hafa fólk í vinnu til þess að fást við kerfið ef svo má segja.“ Þetta sé mjög óheppilegt í ljósi þess að ný störf og ný verðmæti verði yfirleitt til hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, nú þegar þörf sé á því að auka verðmætasköpun og þurfum að fjölga störfum. 

Forsætisráðherra segir að undirbúningur hafi staðið í ráðuneytinu frá því að stjórn hans tók við. Næstu daga verði sú vinna metin í samráði við hagsmunaaðila og erlenda sérfræðinga. Einn þeirra er Michael Gibbons, stjórnarformaður Regulatory Policy Committee, sem hefur eftirlit með reglusetningu í bresku stjórnsýslunni. Hann segir að lykilatriðið við einföldun regluverks sé að stjórnvöld marki stefnu. Fyrst þurfi að finna út hvaða reglur séu mest íþyngjandi.