Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinna að áætlun um sóttvarnamiðstöð vegna Wuhan-veiru

01.02.2020 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Heilbrigðisyfirvöld ásamt Rauða krossinum vinna nú að áætlun um sóttvarnamiðstöð, komi upp Wuhan-kórónuveirufaraldur hér á landi. Þar geti ferðamenn eða þeir sem ekki geti verið heima dvalist í sóttkví utan heilbrigðisstofnana.

„Við höfum verið að fara yfir okkar áætlanir og pússa af þeim rykið. Svo erum við að undirbúa eða gera áætlun um okkar aðkomu í samráði við heilbrigðisyfirvöld að sóttvarnarmiðstöð utan heilbrigðisstofnana,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum. Ekki er búið að ákveða hvar sú miðstöð verður ef til þess kemur að það þurfi að virkja hana.

Hvað felst í sóttvarnamiðstöð? „Ef fólk þarf að fara í sóttkví eða vera fjarri heimili sínu eða ferðamenn sem koma hingað veikir að þeir fái stuðning eða þá þjónustu sem þeir þurfa á meðan þeir þurfa að dvelja jafnvel vikum saman í sóttkví. Rauði krossinn er aðallega að skoða hvernig við getum stutt við fólkið sem er í sóttkví, með sálrænum stuðning eða með þeim hætti sem mögulegt er, hvort sem það eru símtöl í gegnum 1717 eða eitthvað slíkt.“

Stjórnvöld og stofnanir vinna hörðum höndum að því að uppfæra varúðarráðstafanir vegna Wuhan-kórónaveirunnar. Óvissustig almannavarna er í gildi vegna veirunnar og samhæfingastöðin kom saman í gær. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV