Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vín,kaffi og súkkulaði

07.03.2016 - 14:26
Mynd: - / wikimedia
Hvernig tengjast þessar unaðsvörur loftslagsmálum? Um það fjallar Stefán Gíslason í pistli sínum í dag.

 

Loftslagsbreytingar eru án nokkurs vafa eitt stærsta vandamálið sem mannkynið þarf að glíma við á næstu misserum og næstu áratugum. Flestir tengja þetta fyrirbæri aðallega við hækkun hitastigs, hækkun sjávarmáls, breytingar í veðurfari, bráðnun jökla og nú upp á síðkastið einnig við súrnun sjávar. En loftslagsbreytingar geta líka haft ýmsar aukaverkanir sem snerta okkur öll – og þá ef til vill sérstaklega þau okkar sem alla jafna höfum hvað minnstar áhyggjur af þessu öllu saman og erum viss um að vandamálin komi harðast niður á einhverju fólki í útlöndum. En svo heppin erum við líklega ekki. Það gæti jafnvel farið svo að innan fárra ára verði loftslagsbreytingar farnar að hafa veruleg áhrif á framboð, verð og gæði nauðsynjavöru á borð við vín, kaffi og súkkulaði.

 

Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa veruleg áhrif á vínframleiðslu, hvort sem litið er til Evrópu, Ameríku eða Ástralíu. Fyrr í þessum mánuði birti The Guardian til dæmis umfjöllun um áhyggjur ástralskra vínbænda af þróun mála þar um slóðir. Loftslagsbreytingar hafa gert það að verkum að vínberin þroskast fyrr með hverju árinu sem líður. Hægt er að rekja þessa þróun 30 ár aftur í tímann og reyndar hefur þróunin verið ívið hraðari eftir því sem liðið hefur á þetta tímabil. Á árunum 1993-2009 hefur þroskunartíminn færst fram að meðaltali um 1,7 daga á ári samkvæmt rannsóknum vísindamanna við háskólann í Melbourne, þar sem skoðuð voru gögn um vínrækt 115 ár aftur í tímann. Snow Barlow, heiðursprófessor í landbúnaðar og matvælafræðum við skólann, hefur orðað það svo að menn geti sagt hvað sem þeir vilji um loftslagsbreytingar, en plönturnar ljúgi ekki.

 

Nú geta menn spurt sem svo hvort það sé ekki bara fínt að vínberin þroskist fyrr, þá gangi þetta allt fljótar fyrir sig og varan komist fyrr á markað. En svo einfalt er það ekki. Það eitt að vínberin þroskist hraðar gerir það að verkum að hlutfall milli sykurs og sýru breytist og í stað bragðmikilla vína sitja menn uppi með bragðlítið sull með tiltölulega háa alkóhólprósentu. Í þokkabót eru seinsprottnar rauðar þrúgur farnar að þroskast á sama tíma og fljótsprottnari afbrigði á borð við Chardonnay, sem þýðir að álag á mannafla og búnað dreifist á styttri tíma en áður með tilheyrandi vandamálum í gæðum og hagkvæmni. Aukin hætta á runnaeldum samfara hlýnandi hitastigi og auknum þurrkum eykur svo enn á áhyggjur vínbændna þarna hinum megin á hnettinum.

 

Loftslagsbreytingar hafa ekki aðeins áhrif á vínrækt í Ástralíu, heldur geta menn einnig átt von á stórum breytingum á þessu sviði í Evrópu og Ameríku. Með því er ekki verið að segja að vínrækt muni leggjast af, heldur er líklegt að tiltekin vínræktarhéruð og vínberjaafbrigði heyri senn sögunni til sem slík. Þannig gætu héruð á borð við Bordeaux og Rhone í Frakklandi, Tuscany á Ítalíu og Napa Valley í Kaliforníu orðið illa úti. Fyrir þremur árum birtist vísindagrein í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences, þar sem líkum var að því leitt að um miðja þessa öld verði 85% af evrópskum vínekrum á Miðjarðarhafssvæðinu orðin ónothæf til vínræktar vegna hlýnunar og þurrka. Og í umfjöllun tímaritsins Geographical um miðjan febrúar kom fram að hin vinsæla Merlotþrúga gæti jafnvel dáið út á næstu áratugum, en Merlot er einmitt talsvert viðkvæmari fyrir breyttu hitastigi en til dæmis þrúgan Cabernet Sauvignon. Öll þessi þróun er frekar ógnvekjandi fyrir unnendur góðra vína, en á móti kemur að ef til vill munu opnast nýir möguleikar til vínræktar í Norður-Evrópu, Kína og norðvesturríkjum Bandaríkjanna. Líklega eru horfurnar einna verstar í Ástralíu, þar sem ekki verður séð að ný svæði opnist til vínræktar í neinum mæli í stað þeirra sem heltast úr lestinni. Nýju svæðin hafa þó sínar takmarkanir, því að þar er í mörgum tilvikum um að ræða náttúruverndarsvæði eða víðerni, svo sem í og í grennd við Yellowstone Park í Bandaríkjunum, svo og í Kína þar sem vínræktin mun að öllum líkindum teygja sig inn í búsvæði risapöndunnar, sem er í útrýmingarhættu.

 

Kaffiræktendur hafa ekki síður áhyggjur af loftslagsbreytingum en vínræktendur. Þar vega hvað þyngst áhyggjur manna af því að mjög muni þrengja að rætkun á Arabica kaffibaunum, sem þykja taka öðrum kaffibaunum fram. Talið er að vegna loftslagsbreytinga muni framleiðslan á Arabica jafnvel dragast saman um helming fram til ársins 2050 á sama tíma og eftirspurn eftir kaffi muni að öllum líkindum fara mjög vaxandi samfara fjölgun mannkyns og auknum kaffiþorsta Kínverja og annarra þjóða sem hingað til hafa verið eftirbátar Vesturlandabúa í kaffineyslu og í neyslu yfirleitt. Í þessu sambandi er jafnvel talað um tvöföldun eða þreföldun eftirspurnarinnar fram til næstu aldamóta.

 

Loftslagsbreytingar eru reyndar þegar farnar að hafa veruleg áhrif á kaffiframleiðsluna í heiminum. Þannig dróst kaffiframleiðsla Indverja saman um næstum 30% á tímabilinu frá 2002-2011 og er þessi samdráttur einkum rakinn til hækkandi hitastigs, minnkandi úrkomu, óvæntra breytinga í úrkomumynstri, úbreiðslu sjúkdóma á borð við kaffiryð og meindýra sem þrífast vel við þessar breyttu aðstæður. Eins hafa menn horft upp á gríðarlegar breytingar í ríkinu Minas Gerais í Brasilíu, en þar hefur úrkoman síðustu misserin ekki verið nema 10% af því sem menn hafa átt að venjast. Frá Minas Gerais koma um 25% alls þess kaffis sem framleitt er í Brasilíu. Í þessu sambandi er hollt af hafa í huga að kaffi er ekki bara vinsæll drykkur, heldur byggja um 100 milljónir manna, aðallega í þróunarríkjunum, afkomu sína á kaffi.

 

Framleiðsla á súkkulaði fer heldur ekki varhluta af loftslagsbreytingum. Í skýrslu Peters Läderachs og félaga frá árinu 2013, sem vísað er til í 5. ástandsskýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, kemur t.d. fram að af 294 ræktunarsvæðum sem höfundar skoðuðu, verði aðeins um 10,5% hentugri til kakóframleiðslu árið 2050 en þau eru í dag, en hin 89,5 prósentin verði að öllum líkindum síður hentug. Þessar breytingar muni þó gerast það hægt að þær muni aðallega bitna á næstu kynslóð kakóbænda og því sé enn tími til aðgerða. Reyndar má benda á, súkkulaðiunnendum til uppörvunar, að svo virðist sem kaffibændur snúi sér nú í auknum mæli að kakóræktun. Þetta á m.a. við um svæði í Níkaragúa þar sem margir bændur hafa gefist upp á kaffinu eftir baráttu við hækkandi hitastig og kaffiryð. Þar er kaffiræktunin smátt og smátt að færast hærra upp í hlíðarnar og í staðinn eru menn farnir að rækta kakópálma niðri á láglendinu. Sem dæmi um þróunina má nefna að kakóútflutningur Níkaragúa jókst um 80% á milli áranna 2014 og 2015 á sama tíma og úflutningur á kaffi þaðan og frá öðrum löndum Mið-Ameríku var sá minnsti sem verið hefur í rúm 40 ár.

 

Það eru sem sagt ýmsar blikur á lofti þegar rýnt er í framtíðina hvað varðar framleiðslu á víni, kaffi og súkkulaði – og í öllum þessum búgreinum eru greinilega að verða miklar breytingar. Fljótt á litið virðast fæstar þessara breytinga vera til góðs. Því er ekki úr vegi að enda þennan pistil á heilræði sem einhvern tímann var prentað á lítinn segul sem hangir á ísskápshurðinni heima hjá mér: „Við verðum að bjarga Jörðinni. Hún er eini staðurinn þar sem maður getur fengið súkkulaði“!

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður