Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vindmyllur við Búrfell hafa lítil áhrif

13.10.2015 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Samkvæmt frummati Landsvirkjunar á umhverfisáhrifum Búrfellslundar, þar sem til stendur að reisa allt að 80 vindmyllur, verða umhverfisáhrifin fyrst og fremst tengd ásýnd svæðisins. Aftur á móti hafi uppbygging og rekstur vindmylla jákvæð áhrif á svæðinu þar sem atvinnutækifæri skapast.

Landsvirkjun hefur birt frummatskýrslu á umhverfisáhrifum Búrfellslundar á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu. Reistar verða 58-80 vindmyllur á svæðinu en fjöldi þeirra fer eftir stærðinni. Til stendur að reisa 200 MW vindmyllulund og verða vindmyllurnar annað hvort fleiri og minni eða færri og stærri. Mastur hverrar myllu verður allt að 92 metra hátt og þvermál spaðanna getur orðið allt að 115 metrar. Af þessum stærðum má sjá að talsvert svæði fer undir vindmyllulundinn.

Þrátt fyrir það er það niðurstaða Landsvirkjunar að helstu neikvæðu umhverfisáhrifin verði áhrif á ásýnd svæðisins. Þau áhrif tengist beint áhrifum á landslag, nærsamfélag, ferðaþjónustu og ferðamenn. Aftur á móti er talið að uppbygging og rekstur vindmyllanna hafi jákvæð áhrif á sveitarfélög á svæðinu þar sem atvinnutækifæri skapist og tekjur aukist.

Talið er að uppbygging vindlundar hafi óveruleg áhrif á gróður, fugla, hljóðvist, jarðmyndanir og fornleifar. Hins vegar hafi uppbygging svæðisins nokkuð neikvæð áhrif, sérstaklega á ferðaþjónustu, ferðamenn og upplifun þeirra á svæðinu enda verða möstrin vel sýnileg.

Frummatsskýrslan er nú til kynningar hjá Skipulagsstofnun og gefst almenningi kostur á að koma á framfæri athugasemdum og upplýsingum næstu vikurnar.