Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vindmyllur leysi dísilrafstöðvar af hólmi

23.07.2019 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Grímseyingar leita leiða til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis við raforkuframleiðslu. Meðal annars á að skipta út ljósaperum og kanna möguleika á að reisa þar vindmyllur og sólarsellur.

Grímseyingar hafa hingað til reitt sig á dísilrafstöð til raforkuframleiðslu og húshitunar. Ríkið niðurgreiðir orkunotkun Grímseyinga til Rarik sem sér um raforkuframleiðsluna. Endurnýja á dísilvélarnar í haust. Á hverju ári eru notaðir um 250-300 þúsund lítrar af dísilolíu í Grímsey og það er því mikið hagsmunamál að spara orku með öllum mögulegum ráðum. 

„Við höfum verið að gera tilraunir með lífdísilnotkun, lífdísil sem er framleiddur á Akureyri hjá Orkey. Það hefur skipt verulegu máli. Við höfum minnkað jarðefnaeldsneytisnotkun talsvert með þeim hætti. En nú viljum við skoða næstu aðgerðir um að skipta frekar um orkugjafa og bæta við vindorku og mögulega sólarorku hér og þar,“ segir Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Grímsey hentug fyrir vindmyllur

Hann segir að hvert einasta skref í orkusparnaði í Grímsey sé mikilvægt. Meðal einfaldra aðgerða sé að skipta út ljósaperum í ljósastaurum og á heimilum fyir LED-perur sem séu bæði orkusparandi og endingarbetri en hefðbundnar ljósaperur. Þá séu aðstæður í Grímsey hentugar fyrir vindmyllur.

„Já þær eru fýsilegar. Þetta er lítið samfélag og lítið kerfi svo stórar og hagkvæmustu myllurnar passa ekki þarna en minni myllur sem væru með bakkupp frá dísilrafstöðinni myndu henta mjög vel þarna,“ segir Sigurður

Bandaríkjamenn áhugasamir um verkefnið

Orkuskiptin í Grímsey hafa víða vakið athygli, meðal annars í bandarískra sendiráðinu.

„Það samtal spratt langmest út af því að þeir hafa ákveðna reynslu í að vinna með lítil einangruð samfélög sem eru að keyra á eigin raforkunotkun, sem hingað til hefur langmest verið dísil. Þeir vilja reyna að finna leið til að bæta inn vind- og sólarorku þar inn til að draga úr dísilnotkun,“ segir Sigurður.
 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV