Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vínarborg verðlaunar bíllausan lífsstíl

02.02.2020 - 08:09
epa04439470 A train exits the Vienna Central Railway Station, in Vienna, Austria, 10 October 2014. The Railway Station celebrated its official opening on 10 October 2014 and completion of work at the Central Train Station is planned for 2015.  EPA/ROLAND
 Mynd: EPA - APA
Borgaryfirvöld í Vínarborg ætla að verðlauna þá sem fara á milli staða í borginni með almenningssamgöngum, gangandi eða hjólandi með fríum aðgangi að tónleikum og söfnum.

Borgin kynnti nýtt app á mánudaginn var. Þúsund notendur verða í prufuhóp og fá að nota snjallsímaappið frá 26. febrúar í hálft ár. Ef vel tekst til verður appið opið öllum frá haustinu.

Appið fylgist með því hvernig notandinn ferðast og reiknar út hversu mikinn útblástur viðkomandi sparar miðað við að fara sömu leið á bíl. Þegar notandinn hefur sýnt fram á að hann hafi sparað jafnvirði 20 kílógramma útblásturs koltvíoxíðs fær hann gjafabréf á eina af fjórum menningarmiðstöðvum borgarinnar sem taka þátt í verkefninu. Vefmiðillinn The Local hefur eftir Christinu Hubin, verkefnastjóra, að það taki meðalmanninn um tvær vikur að safna upp þeim sparnaði með því að sleppa bílnum. 

Minjasafn borgarinnar, listasafn, leikhús og tónleikahús þar sem sígild tónlist er flutt taka þátt í verkefninu með borginni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV