Villtu hjónin fundin á Kili

14.07.2019 - 00:35
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Belgísk hjón sem leitað var að á Kili í kvöld eru fundin, heil á húfi. Tugir björgunarsveitafólks í Árnessýslu hófu leit að þeim um hálftíuleytið í kvöld, en þau urðu viðskila við göngufélaga sína á Kili síðdegis í dag og villtust langt af leið.

Hjónin lögðu upp í göngu frá Gíslaskála um tvöleytið á laugardag ásamt sonum sínum tveimur. Ferðinni var heitið að Beinhóli við Kjalfell, að sögn Frímanns Baldurssonar, sem stjórnaði leitaraðgerðum Landsbjargar í kvöld. Þau ákváðu að taka krók á bakaleiðinni en synirnir héldu aftur til Gíslaskála og voru komnir þangað um fimmleytið. 

Leið svo og beið án þess að foreldrarnir skiluðu sér í skála og urðu synir þeirra þá nokkuð áhyggjufullir. Um áttaleytið náðu þeir símasambandi við foreldra sína, sem þá reyndust rammvillt og höfðu ekki hugmynd um hvar þau voru. Fremur kalt var á Kili í kvöld, lágskýjað og skyggni ekki með besta móti. Þar að auki er villugjarnt mjög á þessum slóðum og svæðið erfitt yfirferðar eins og sagan vitnar um, en það var við Beinhól sem Reynistaðarbræður og fylgdarmenn þeirra urðu úti haustið 1780. 

Bræðurnir kölluðu eftir aðstoð og fóru fyrstu björgunarsveitarhóparnir af stað um hálftíuleytið. Símasamband náðist aftur við hjónin á ellefta tímanum og seint á tólfta tímanum sögðust þau sjá móta fyrir ljósmerkjum leitarfólks, sem gaf frá sér fjölda ljós- og hljóðmerkja við leitina. Fikraði leitarfólk sig í áttina til þeirra út frá þeim vísbendingum sem þau gátu gefið. Það var svo á fyrsta tímanum í nótt að þeim hjónum auðnaðist að finna út úr því, hvernig þau gátu fundið nákvæma staðsetningu sína með hjálp snjallsímans og senda gps-staðsetningarpunkt til björgunarliðsins. 

Var þá eftirleikurinn auðveldur, að sögn Frímanns; jeppi var einfaldlega sendur á þann punkt sem gefinn var upp, um 3 kílómetra suðaustur af Kjalfelli, og þar beið fólkið, nokkuð kalt og skelkað, en að öðru leyti í ágætu standi og fegið að sjá bjargvætti sína. 

Á fimmta tug björgunarsveitafólks tók þátt í leitinni á tólf tækjum. 

Fréttin var uppfærð kl. 01.20

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi