Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Villt hálendi verðmætara en virkjað

13.07.2015 - 09:05
Mynd: Ferðastiklur/Lára Ómarsdótti / RÚV
Nýkjörinn formaður Landverndar, Snorri Baldursson, vill að stjórnvöld leggi fremur fjármagn í ferðaþjónustu en stóriðju.Breytingartillaga umhverfisráðherra við rammaáætlun var samþykkt á lokadögum þingsins. Þá var Hvammsvirkjun færð úr biðflokki í nýtingarflokk.

Vel á annan tug virkjanakosta eru komnir í nýtingarflokk, en virkjanamál voru mikið til umræðu á nýafstöðnu þingi. Snorri segir ekki þörf á fleiri virkjunum á hálendinu.

„Manni finnst það væri möguleiki á því að staldra við og sjá hvort hægt sé að nýta þessa kosti sem eru í nýtingarflokki. Og jafnvel stöðva rammáætlunarferlið, það væri mín tillaga. Stöðva það kannski í 10 ár, nýta þetta upp, og sjá hvort að það sé það mikil þörf á nýrri stóriðju að við þurfum að ráðast í fleiri vatnsaflskosti," sagði Snorri í samtali við Morgunútgáfuna í morgun. 

Snorri segir nóg komið af virkjunum og sérstaklega vegna þess að ferðaþjónusta skili nú meiri arðsemi fyrir dreifðar byggðir landsins en stóriðja gerir.

„Þessi megingalli á stóriðjunni er að það þarf þessar miklu virkjanir fyrir hana. Ef menn ætla í fleiri vatnsaflsvirkjanir að einhverju ráði til viðbótar verða menn að ráðast inn á miðhálendi Íslands. Við teljum það svo óendanlega miklu verðmætara, villt en virkjað, og það sé ekki forsvaranlegt að ganga meira á það en orðið er. “

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður