Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill vita af hverju Haraldur var ekki áminntur

25.09.2019 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Skjámynd - Alþingi
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að það útskýri af hverju það áminnti ekki ríkislögreglustjóra þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun þeirra um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Bréfin voru skrifuð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra.

Þetta kemur fram í bréfi sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður, sendi dómsmálaráðherra fyrir tveimur dögum.

Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að framganga Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, hefði verið ámælisverð þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun þeirra. Haraldur hafði sakað fjölmiðlamennina um að bera ábyrgð á ólögmætri meingerð vegna umfjöllunar þeirra um efnahagsbrotadeild embættisins og voru bréfin rituð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra.

Vildu að ríkislögreglustjóri yrði áminntur

Í bréfi umboðsmanns kemur fram að fjölmiðlamennirnir tveir, Björn Jón Bragason og Sigurður K. Kolbeinsson, telji að þessi niðurstaða ráðuneytisins hafi ekki falið í sér „fullnægjandi lyktir.“  Framkoma ríkislögreglustjóra hafi verið það alvarleg að það kalli á áminningu hans. 

Umboðsmaður óskar því eftir skýringum frá dómsmálaráðherra af hverju  Haraldur hafi ekki verið áminntur þrátt fyrir að það hafi verið mat ráðuneytisins að efni og framsetning bréfanna hafi verið ámælisverð.  „Ég óska því, eftir að ráðuneytið geri grein fyrir að hvað  marki og hvers vegna það taldi að sú háttsemi ríkislögreglustjóra félli ekki undir þau tilvik sem samkvæmt lögum skulu vera tilefni áminningar.“

En þetta er ekki það eina sem umboðsmaður óskar eftir skýringum á. Því í bréfi hans til ráðuneytisins kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi sent þeim Birni Jóni og Sigurði bréf í byrjun júní þar sem hann biðst afsökunar á því að hafa sakað þá um „ólögmæta  meingerð.“ Þau bréf voru skrifuð á bréfsefni ríkislögreglustjóra og í nafni embættisins.  Umboðsmaður óskar eftir afstöðu ráðuneytisins á því hvort þessi notkun Haraldar á bréfsefni embættisins hafi samrýmst niðurstöðu þess frá því í lok maí.  Umboðsmaður segist þar hafa það í huga að ríkislögreglustjóri hafi sent honum og ráðuneytinu bréf þar sem hann fjalli um lögmæti þess að nota bréfsefnið. 

Forsaga málsins 

Í bók Björns Jóns Bragasonar sem kom út árið 2016, Gjaldeyriseftirlitið, er fjallað um fund sem haldinn var í innanríkisráðuneytinu árið 2011. Haft er eftir Valtý Sigurðssyni, þáverandi ríkissaksóknara sem sat fundinn, að Haraldur hafi sagt að það liti illa út fyrir embættið ef svokallað Asertamál yrði fellt niður þegar fundarmenn vildu fella málið niður. Þetta sagði Valtýr einnig í viðtali við Sigurð Kolbeinsson á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Þann 2. mars 2018 sendir Haraldur Johannessen bréf á þá Björn Jón og Sigurð með ábyrgðarpósti, sem ritað er á bréfsefni ríkislögreglustjóra og undirritað af honum sjálfum, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur sem titluð var fyrrverandi saksóknari efnahagsbrotadeildar og Guðmundi Guðjónssyni, titlaður fyrrverandi yfirlögregluþjónn. Í bréfinu er því haldið fram að umrædd frásögn í bókinni sé markleysa og að höfundurinn beri ábyrgð á ólögmætri meingerð ggn þeim.

Björn Jón kvartar til Umboðsmanns Alþingis vegna samskiptanna við Harald. Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að efni og framsetning hafi verið ámælisverð og til þess fallin að rýra traust og trú á embætti lögreglustjóra. Ráðuneytið sagðist líta málið mjög alvarlegum augum að ríkislögreglustjóri skuli senda borgurum bréf með fullyrðingum um ólögmæta háttsemi þeirra, án þess að nokkur lagalegur grundvöllur sé til staðar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Magnús Geir Eyjólfsson