Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill upplýsingar um áætlanir Bandaríkjahers

06.12.2017 - 18:59
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um fyrirætlanir bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli vegna aukinna umsvifa Rússa á svæðinu umhverfis Ísland. Katrín segir að ekki liggi fyrir að til standi að herinn verði með fasta viðveru hér og ítrekar andstöðu VG við veru hers á Íslandi.

Umferð rússneskra kafbáta við Ísland hefur snaraukist, en fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik. Þar kom fram hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að fleiri kafbátar séu á þessum slóðum en voru á tímum kalda stríðsins. Að sama skapi hefur eftirlit Atlantshafsbandalagsins aukist. Bandaríkjaheri hefur óskað eftir framlagi í bandarískum fjárlögum fyrir  næsta ár sem nemur um einum og hálfum milljarði króna. Þetta er gert til að ráðast í framkvæmdir við flugskýli á Keflavíkurflugvelli svo hægt sé að koma þar fyrir fleiri P8 kafbátaleitarflugvélum. Beðið er staðfestingar Bandaríkjaforseta á fjárframlaginu.

„Ég hef einmitt óskað eftir nánari upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um hvað felst nákvæmlega í þessum framkvæmdum við flugskýlin. Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart eftir þær umræður sem hafa verið um viðbúnað, sérstaklega í hafinu í kringum okkur. En ég hef líka rætt við utanríkisráðherra um málið og það liggur ekki fyrir að það verði  nein föst viðvera hér á landi til lengri tíma sem er mikilvægt í mínum huga,“ segir forsætisráðherra.

Forsætisráðherra segir að fyrir liggi að ríkisstjórnin vitni til samþykktrar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland í sáttmála sínum og hluti hennar sé aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin, þótt VG einn flokka, hafi verið og sé andvígur aðildinni og samningnum. Því sé starfað eftir þeirri stefnu, en grannt fylgst með þróun mála.  Hún segir að eitt þeirra atriða sem hún vilji fá upplýsingar um sé hvort Bandaríkjaher þurfi leyfi íslenskra stjórnvalda fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum. Ekki sé ljóst hvort í fyrirhugðum áætlunum felist í raun mikil breyting.

„Ekki endilega, en eins og ég segi, ég óskað eftir upplýsingum þannig að það liggi bara algjörlega á hreinu hvort þetta er einhver breyting eða hvort þetta mætti frekar kallast bara eðlilegt viðhald á þessum mannvirkjum. “

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV