Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vill upplýsa um „dýraníð í atvinnurekstri“

06.10.2015 - 20:08
Gylta á íslensku svínabúi.
 Mynd: Matvælastofnun - RÚV
Aldrei á að þagga niður dýraníð í atvinnurekstri, segir formaður Dýraverndarsambands Íslands. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill að bú í verksmiðjuframleiðslu verði opnuð og segir að neytendur muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir kaupa kjöt af slíkum búum.

Neytendur „hugsa sig tvisvar um“
Myndir, sem fréttastofa birti fyrir viku af gyltum á alltof þröngum stíum, auk frétta af öðrum brotum í íslenskri svínarækt, hafa vakið hörð viðbrögð almennings. Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að skuggi hvíldi yfir þeim sem stunduðu svokallaðan verksmiðjubúskap. „Neytendur munu hugsa sig tvisvar um áður en þeir kaupa umrætt kjöt,“ segir Elín.

Hún segir mjög mikilvægt að neytendur geti séð á umbúðum vörunnar hvaðan kjötið kemur. „Er þetta innlent eða erlent kjöt, og í öðru lagi kemur kjötið frá búum sem hlotið hafa gæðavottun í dýravelferð? Og að lokum vil ég hvetja svína- og kjúklingabændur til að opna bú sín,“ segir Elín.

Matvælastofnun neitar að upplýsa hvar myndirnar af gyltunum voru teknar, því að það séu viðkvæm einkamál einstaklinga. Allir svínaræktendur, sem úttekt Matvælastofnunar náði til, neituðu í samtali við fréttastofu í síðustu viku að þær væru teknar hjá þeim.

Allir sitja undir að vera „dýraníðingar“
„Mér finnst alveg ótækt að neytendur geti ekki kynnt sér velferð þeirra dýra sem þeir kaupa afurðir af,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. Hún segir að það stuðli ekki að velferð dýra að upplýsa ekki hvar brotin eru framin. Hún telur að túlkun Matvælastofnunar á upplýsingalögum sé röng. Hana gruni að með því að vísa til viðkvæmra einkamálefna sé Matvælastofnun að rugla saman einkalífi og atvinnurekstri.

„Mér finnst ekki að það eigi að þagga niður dýraníð í atvinnurekstri. Ekki undir neinum kringumstæðum. Jafnframt bitnar þetta mjög á þeim bændum sem leggja áherslu á velferð sinna dýra. Nú sitja allir bændur undir því að vera dýraníðingar og enginn þeirra getur almennilega varið sig,“ segir Hallgerður.

Stofnandi segist ekki geta svarað
Fréttastofa hefur síðustu daga beðið um að fá að taka myndir á íslenskum svínabúum. Ekki hefur náðst í framkvæmdastjóra Stjörnugríss, stærsta framleiðandans, en hann mun vera í útlöndum. Stjórnarformaðurinn, sem er einn stofnenda fyrirtækisins, vísaði á framkvæmdastjórann í dag. Spurður hvort myndirnar kynnu að hafa verið teknar á hans búi, miðað við þá tegund innréttinga sem þar sjást, sagðist hann ekki geta svarað því.

Síld og fiskur, næststærsti framleiðandinn, vildi ekki leyfa myndatökur. Forstjórinn segir að fyrirtækið noti ekki þessa tegund innréttinga.