Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vill þakka Reykjavík fyrir skjólið

14.11.2011 - 20:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Mazen Maarouf, palestínska ljóðskáldið og blaðamaðurinn sem fengið hefur skjól á Íslandi, vonar að dvöl hans hér verði til þess að arabaheimurinn kynnist íslenskum bókmenntum.

Mazen Maarouf er palestínskur flóttamaður fæddur í Líbanon.  Foreldrar hans voru reknir af því svæði þar sem nú er Ísrael árið 1948 og eru ríkisfangslaus eins og Maarouf.   Hann er bókmennta og leikhúsgagnrýnandi en hefur skrifað um samfélagsmál líka. Hann er friðarsinni og hefur gagnrýnt þá sem drepa í þágu málstaðar.  

"Ég vil ekki þessar blóðsúthellingar," segir Maarouf. "Ég vil ekki að fólk sé drepið í nafni málstaðar míns. Ég tel ekki rétt að drepa sitt fólk og segjast svo vera að drepa til að vernda sjálfan sig og ríkisstjórnina, til að frelsa Palestínu."

Svona tal féll ekki í kramið hjá ákveðnum valdahópum, segir Maarouf.  Staða hans versnaði enn frekar fyrir þremur árum þegar hann tók saman upplýsingar um morð á blaðamönnum fyrir dansfélag sem var að setja upp sýningu um efnið.  Eftir það fór hann að óttast verulega um líf sitt.   

"Þá fékk ég skilaboð, við skulum segja, um öryggi mitt í Líbanon frá fólki sem vinnur gegn Lýðræði, við skulum orða það svo," segir Maarouf. "Þá neyddist ég til að flytja burt."

Maarouf kemur til Ísland á vegum  samtakanna ICORN international cities of refuge network en Reykjavík varð nýlega ein af um fimmtíu borgum sem veita landflótta rithöfundum tímabundið skjól.

"Mér finnst ég miklu öruggari, það er alveg víst," segir Maarouf. "Hér er indælt fólk, vinalegt og mjög hjálpsamt. Það hefur sýnt mér mikla gestrisni."

Maarouf er að skrifa bók og ætlar að vinna að henni hér en hann vonar að dvöl hans verði til þess að arabaheimurinn kynnist íslenskum bókmenntum 

"Ég vil efna til menningarsamstarfs og að mínu mati er þetta það minnsta sem ég get gert fyrir Reykjavík til að þakka fyrir mig," segir Maarouf.