
Vill styrkja húsnæðismarkaðinn úti á landi
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu á vef Stjórnarráðs Íslands.
Þar segir að dýr og erfið fjármögnun, skortur á byggingaraðilum og misvægi milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hafi valdið því að lítið eða ekkert sé byggt. Sérfræðingar Íbúðalánasjóðs sjái merki um markaðsbrest á mörgum svæðum.
Ráðherra vill ráðast í aðgerðir sem geri Íbúðalánasjóði fært að bjóða nýjar tegundir lána til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni, svo sem með reglugerðar- og lagabreytingum.
Þá standi til að heimilt verði að veita sérstakt byggðaframlag vegna leiguíbúða á svæðum þar sem þetta misvægi ríki og heimildir sveitarfélaga til þess að leggja fram stofnframlög verði rýmkaðar. Aðrar tillögur snúi meðal annars að tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs með sjö sveitarfélögum.
Drög að frumvarpi þessa efnis voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí, segir í tilkynningunni.
Félags- og barnamálaráðherra leggur áherslu á að tryggja þurfi íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að fjármagni á sambærilegum kjörum og fáist á virkari markaðssvæðum.