Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill stjórn yfir miðjuna frá hægri til vinstri

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er hrifnari af þeirri hugmynd að mynda ríkisstjórn með breiða skírskotun yfir miðjuna, frá hægri til vinstri, en að fráfarandi stjórnarandstaða myndi saman ríkisstjórn. Hann segir að það væri vænlegra til að skapa hér pólitískan stöðugleika og segist tilbúinn að taka við stjórnarmyndunarumboðinu frá forseta til að koma saman slíkri stjórn.

„Það hefur verið afstaða mín og Framsóknarmanna að til þess að skapa pólitískan stöðugleika í þessu landi þurfi breiða ríkisstjórn. Ég hef talað fyrir því,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann kom út af fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum nú skömmu fyrir klukkan eitt.

Tæpar stjórnir hafa hoppað fyrir björg

Hann segist ekki vilja útiloka fjögurra flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknar, en að slík stjórn hefði einungis eins manns meirihluta og væri því mjög tæp. „Við höfum séð hvernig slíkar ríkisstjórnir hafa hoppað fyrir björg á mjög stuttum tíma,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagði að stjórn með breiðari skírskotun gæti þýtt að í henni sætu fleiri flokkar eða að hún hefði næði einfaldlega yfir miðjuna, frá hægri til vinstri.

„Ég er fyrst og fremst að horfa á að búa til ríkisstjórn með breiða skírskotun í báðar áttir. Ég held að það sé það sem þurfi hér í landinu til að búa til pólitískan stöðugleika. Það er sá möguleiki sem ég mundi helst vilja vinna að en það eru aðrir möguleikar í stöðunni,“ sagði Sigurður.

„Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur, hann kann að vinna bæði til hægri og vinstri og að leiða saman ólíka aðila og við treystum okkur til þess.“

Sammála Bjarna og Katrínu um að rétt sé að bíða

Hann sagðist tilbúinn að taka við stjórnarmyndunarumboðinu en hins vegar væri hann sammála þeim Bjarna Benediktssyni og Katrínu Jakobsdóttur um að líklega væri réttara að bíða átekta og leyfa forystumönnunum að ræða betur saman áður en frekari skref yrðu tekin í þá átt.

Hann sagðist hafa rætt við sumar flokksformenn en ekki alla. Hann var spurður hvort hann hefði rætt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, sem klauf sig úr Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna.

„Ekki um stjórnarmyndun, nei,“ var svarið.

Hægt er að horfa á það þegar Sigurður Ingi sat fyrir svörum í spilaranum hér að ofan.