Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Vill starfsstjórn og þingkosningar

07.03.2010 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kalla eftir þingkosningum í vor. Formaður Framsóknarflokksins vill að ríkisstjórnin fari frá og starfsstjórn sitji fram að kosningum. Formenn ríkisstjórnarflokkanna segja að dagar stjórnarinnar séu ekki taldir en formaður Samfylkingarinnar segir að þétta þurfi raðir ríkisstjórnarinnar.

Það kom til snarpra skoðanaskipta milli formanna stjórnarmálaflokkanna í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þjóðin hafi í atkvæðagreiðslunni í gær hafnað verkum ríkisstjórnarinnar. Þeim hafi mistekist að leiða málið til lykta í sátt við þjóðina. Aðspurður sagði hann að niðurstaðan í gær jafngildi vantrausti á ríkisstjórnina.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, svaraði Bjarna og sagði að hann væri kjarkmikill að hjóla svona í ríkistjórnin sem hafi tekið við þrotabúi Sjálfstæðisflokksins. Hann skildi bara bíða í viku eða 10 daga. Þá komi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Bjarni sagðist ekki kvíða því.

Jóhanna segir líf ríkisstjórnarinnar ekki vera á enda og Steingrímur segir að ríkisstjórnin sé ekki að líða undir lok. Við höfum þörf fyrir allt annað en að æsa upp pólitískan óróleika. Steingrímur segir að Vinstri grænir séu einhuga um að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu. Steingrímur á von á því að á morgun verði rætt við Breta og Hollendingar á morgun um áframhald Icesave-samningaviðræðna.

Hér má horfa á Silfur Egils frá því í dag.