Vill skoða hærri sektir við utanvegaakstri

07.07.2019 - 10:41
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Sterkasta vopnið gegn náttúruspjöllum utanvegaakstri er fræðsla, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann segir fleiri vera meðvitaða um náttúruspjöll sem þessi og vill skoða hvort hækka eigi sektir við utanvegaakstri.

Ummerki eftir utanvegaakstur geta verið lengi að hverfa með náttúrulegum hætti. Náttúruunnendur hafa brugðið á það ráð að afmá náttúruspjöll ef slíku er komið við en það getur reynst ómögulegt ef spjöll eru unnin á gróðri.

Í sumar hafa verið sagðar fréttir af ummerkjum eftir utanvegaakstur sem hafa uppgötvast eftir að hálendisvegir voru opnaðir. Nýverið tilkynnti Umhverfisstofnun utanvegaakstur á jarðhitasvæði við Sogin í Reykjanesfólksvangi til lögreglu, en þar stendur til að afmá förin á næstu dögum.

Hjá opinberum stofnunum er heilmikil vinna lögð í að sporna við utanvegaakstri, að sögn Guðmundar Inga.

„Ég tel nú að fræðsla sé eitt megin vopnið okkar þegar kemur að utanvegaakstri. En það eru líka reglur og við erum með í náttúruverndarlögunum reglur um það að það má bæði sekta fyrir utanvegaakstur og líka gera ökutæki upptæk og meira að segja eru stærstu viðurlögin fangelsisvist,“ segir hann.

Lágmarkssekt 350 þúsund krónur

Lögreglan metur hvert tilfelli fyrir sig. Lágmarkssektarfjárhæð fyrir utanvegaakstur er 350 þúsund krónur og hækkar í takt við verðlag. Ökumenn hafa þurft að greiða sektir um eða aðeins umfram lágmarksupphæðina.

„Ég tel að reglurnar séu í grundvallaratriðum góðar. Það kann að vera að það mætti hækka sektirnar og það er eitthvað sem ég er mjög tilbúinn til að skoða,“ segir Guðmundur Ingi.

Fræðsluhlutverkið er nú að mestu hjá landvörðum. 200 milljónir króna voru settar aukalega í landvörslu á fjárlögum ársins í ár og á næsta ári eiga að bætast við 300 milljónir í málaflokkinn. „Það held ég að muni meðal annars hafa jákvæð áhrif og til hins betra þegar kemur að vandamálum eins og utanvegaakstri,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segir að efla þurfi fræðslu til ferðamanna þegar þeir koma til landsins, hvort sem þeir leigja sér bíla eða koma á bíl með Norrænu.

„Satt best að segja [hefur] utanumhaldið um þetta að mínu mati farið batnandi á undanförnum 5 eða 10 árum,“ segir Guðmundur Ingi og telur það vera vegna þess hversu margir eru orðnir meðvitaðir um áhrif náttúruspjalla. „Bæði lögreglan, björgunarsveitirnar sem mikið eru farnar að vera inni á hálendinu. Þannig að landverðir, björgunarsveitir og lögreglan eru í mjög góðu samstarfi um þetta.“

„Þetta er bara endalaus vinna sem við verðum bara að halda áfram að takast á við,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi