Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vill skoða bakgrunn allra

13.01.2015 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir óviðeigandi að velta upp þeirri hugmynd hvort kristnir hægri menn eigi að sæta sérstakri skoðun þar sem kristinn hægri maður hafi framið fjöldamorð í Noregi nýverið, enda hafi það verið einstakt dæmi.

Ásmundur hefur í gær og í dag lýst þeirri skoðun sinni að skoða þurfi bakgrunn múslima sem búa hér á landi í tilefni atburðanna í Frakklandi í liðinni viku. Ummælin hafa verið harðlega gagnrýnd og Helgi Hrafn Gunnarsson þingflokksformaður Pírata segir tillöguna ganga gegn lögum og stjórnarskrá. Ásmundur kveðst nú vilja að bakgrunnur allra hugsanlegra afbrota- og öfgamanna sem hingað koma verði skoðaður.

Í fésbókarfærslu Ásmundar skrifaði hann meðal annars þetta: „Ég hugsa að stærsti hluti þeirra múslíma sem hingað koma til lands séu friðsamt og gott fólk.“

Spurður hvort hann geti nefnt dæmi um múslima sem búa á Íslandi sem ekki sé friðsamt og gott fólk segist Ásmundur ekki geta gert það enda þekki hann sáralítið til þessa hóps. Þeir múslimar sem hann þó þekki séu gott fólk. Hann hafi sett þessa skoðun fram til að koma af stað umræðu um þessi mál og koma þannig í veg fyrir hryðjuverkaárásir eins og í Frakklandi í síðustu viku.

Ásmundur segir óviðeigandi að velta upp þeirri hugmynd hvort kristnir hægri menn eigi að sæta sérstakri skoðun með vísan í fjöldamorðin í Noregi árið 2012. Hann segir Anders Breivik hafa verið einan að verki og að enginn styðji það sem hann gerði. Ásmundur segist ekkert vita um það hvort Breivik eigi sér skoðanabræður í Evrópu.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingfl0kksformaður Pírata segir umræðuna sem nú sé farin af stað sorglega og hugmyndir Ásmundar ekki standast lög. Hann segir hugmyndir hans geta kveikt reiðibál hjá múslimum og það sé einmitt það sem öfgahópar múslimar vilji.