Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill sjóð í útlöndum úr ferðamannatekjum

09.03.2017 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstöðumaður Greiningardeildar Íslandsbanka leggur til að stofnaður verði sjóður í útlöndum með tekjum af ferðaþjónustunni. Þannig megi jafna sveiflur í hagkerfinu vegna mikillar aukningar ferðamanna hingað til lands. 

 

Ferðaþjónustan var umræðuefni fundar sem Íslandsbanki boðaði til í morgun. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningardeildar Íslandsbanka, segir að búist sé við áframhaldandi vexti á þessu ári. „Þetta er sjöfaldur fjöldi íbúa í landinu sem við erum að taka á móti á þessu ári gangi spá okkar eftir og það mun reyna á innviði greinarinnar og hagkerfið allt,“ segir Ingólfur. 

Þetta þýði að það skapast um 3500 ný störf á árinu og um helmingurinn af þeim verði unnin af útlendingum. Þá megi búast við áframhaldandi aukningu á heimagistingu. Ingólfur segir það koma til álita að grípa til aðgerða vegna þess hve mikið krónan hefur styrkst. Afgangur hafi verið mikill af viðskiptum við útlönd. „Þá virðist nú ekki vera út frá hinum efnahagslegu forsendum að berja hana niður amk. Hins vegar er alveg góð hugmynd að fara að velta því fyrir sér hvort við eigum að fara að mynda sjóð sem við höldum fyrir utan landið, fyrir utan myntina, og söfnun í hann líkt og Norðmenn hafa t.d. gert sem viðbrögð við olíuauð sínum sem við getum nýtt til sveiflujöfnunar á þessu sviði og öðrum í hagkerfinu,“ segir Ingólfur.