Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill sætta atvinnugreinarnar

09.07.2013 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill sætta sjónarmið hvalaskoðunarfyrirtækja og hvalveiðimanna eftir að griðasvæði hvala á Faxaflóa var minnkað. Ráðherrann segist ekki ánægður með óánægju ferðaþjónustunnar.

Steingrímur J Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, stækkaði griðasvæðið á síðustu dögum sínum í embætti. Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að ógilda þá ákvörðun. 

Í gær sendu samtök Ferðaþjónustjnnar frá sér yfirlýsingu þar sem minnkun á hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóanum er fordæmd. Hvalaskoðun sé stærsta auðlind ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Með ákvörðuninni sé hagsmunum og framtíð heillar greinar fórnað fyrir sérhagsmuni örfárra hrefnuveiðimanna. Tvö hrefnuveiðiskip eru gerð út á svæðinu og veiðimenn fagna ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Atvinnuvegaráðherra segir ekki hægt að hringla með þessa ákvörðun.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir sjávarútvegsráðherra vera búinn að taka ákvörðunina. „Ég býst við því að út sumarið að minnsta kosti verði þetta línan. Það er heldur ekki hægt að hringla með þessa ákvörðun," segir hún. 

Ragnheiður Elín er ekki ánægð með óánægju innan ferðaþjónustufyrirtækja. „Ég vil hins vegar benda á það að þessi atvinnugrein, hvalaskoðun, hefur vaxið gríðarlega samhliða því að verið er að veiða hvalinn og hefur verið þannig undanfarin ár."

Henni er meinilla við að stilla einni atvinnugrein upp á móti annarri og tekur helst ekki þátt í því. „Þessar tvær greinar hafa geta búið og vaxið hlið við hlið. Ég vil finna leið til þess að sætta þessi sjónarmið þannig að við finnum út úr því hvernig við ætlum að hafa þetta til framtíðar."