Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill rökstuðning vegna eftirlitsgjalda

01.08.2019 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Umboðsmaður Alþingis hefur farið fram á að heilbrigðisráðuneytið rökstyðji eftirlitsgjald sem innflytjendur og seljendur rafrettna þurfa að greiða þegar þeir tilkynna Neytendastofu að þeir ætli að setja rafrettur eða áfyllingar á markað.

Seljendum rafrettna ber að tilkynna um rafrettur og áfyllingar í þær til Neytendastofu, sex mánuðum áður en fyrirhuguð vara fer á markað. Í vor sendi umboðsmaður Alþingis erindi til heilbrigðisráðuneytisins eftir að Félag atvinnurekenda kvartaði undan fjárhæð gjaldsins en í kvörtun félagsins sagði að félagið teldi gjaldtökuna íþyngjandi. Heilbrigðisráðuneytið svaraði þeirri fyrirspurn en Félag atvinnurekenda kvartaði á ný.

Umboðsmaður Alþingis hefur því sent heilbrigðisráðuneytinu annað erindi þar er heilbrigðisráðuneytið beðið um að rökstyðja hvernig eftirlitsgjaldið, sem er 75.000 krónur, stenst lög og grundvallarreglur um þjónustugjöld. Í erindi umboðsmanns Alþingis kemur fram að ekki sé víst að hluti þeirra kostnaðarliða sem gjaldið nær til eigi við í öllum tilvikum og að stjórnvöldum sé ekki heimilt að taka gjald umfram beinan kostnað eða þann kostnað sem er í beinum eða efnislegu þjónustu sem er fjallað um í gjaldtökuheimildinni. 

í erindi umboðsmanns segir að þjónustugjöld á borð við þetta séu ekki einsdæmi þegar kemur að eftirlitsgjöldum en þar kemur einnig fram að gjaldið sé ekki eingöngu byggt á kostnaði þeirrar þjónustu sem gjaldandi fær heldur gjaldandinn einnig látinn standa straum af öllum áætluðum kostnaði sem ekki er fjármagnaður með sérstökum fjárveitingum. Heilbrigðisráðuneytið fær frest til 20. ágúst til að skila inn rökstuðningi.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV