Vill ræða málefni Snowdens á Alþingi

22.06.2013 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Birgitta Jónsdóttir alþingismaður ætlar að taka mál Edwards Snowdens upp á Alþingi. Hún segir að hann eigi dauðadóm yfir höfði sér, en forða megi honum frá því með því að leyfa honum að koma hingað til lands. Þrjár flugvélar eru sagðar í viðbragðsstöðu til að flytja Snowden til landsins.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákært uppljóstrarann Edward Snowden fyrir njósnir, þjófnað og að hafa misnotað opinberar eigur. Hann er einnig sakaður um að hafa veitt óviðkomandi aðilum leynilegar upplýsingar. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að ákæran breyti máli hans mikið.

„Það breytir málinu þannig,“ segir Birgitta, „að ef hann myndi sækja um stöðu flóttamanns eða að fá íslenskan ríkisborgararétt værum við að vernda hann gagnvart því að hann yrði dæmdur til dauðarefsingar í Bandaríkjunum. Í ríkinu þar sem hann er ákærður er dauðadómum framfylgt.“

Birgitta fer fram á að mál Edwards Snowdens verði tekið upp á Alþingi ásamt þeim víðtæku njósnum sem hann afhjúpaði. „Þetta er ekki einvörðungu njósnir gagnvart bandarískum borgurum heldur jafnframt Íslendingum og fólki úti um allan heim. Mér finnst furðulegt að ríkisstjórnin hafi ekki komið með neinar sambærilegar yfirlýsingar og nágrannaríki okkar mörg hver. Mig langar að fá umræðu um bæði stöðu Snowdens og þessar upplýsingar sem hann hefur komið á framfæri til almennings víðsvegar um heim um hvað er verið að gera við persónulegustu upplýsingar fólks“

Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að Alþingi ætti að taka mál Snowdens upp og senda fyrirspurn til bandaríska dómsmálaráðuneytisins um hvort njósnað hefði verið um íslenska ríkisborgara. Ögmundur bendir á að Evrópusambandið hafi gert slíkt vegna sinna þegna. Þá segir hann mál Snowdens ekki sambærilegt málum almennra hælisleitenda og því þurfi hann ekki að koma hingað til lands áður en hann getur sótt um hæli. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur hins vegar sagt að það sé eina leiðin fyrir Snowden. Ögmundur segir að það eigi ekki að skipta nokkru máli fyrir íslensk stjórnvöld að það séu bandarísk stjórnvöld sem vilji hafa hendur í hári Snowdens.

„Við eigum náttúrlega ekki að láta það líðast ef bandarísk stjórnvöld eru að stíga á menn eins og reyndar var gert í WikiLeaks málinu, og við sýndum það og það gerði ég í embætti ráðherra innanríkismála, að við vorum ekki tilbúin að taka þátt í neins konar starfi sem sneri að því að stíga á aðila sem koma upplýsingum á framfæri sem eiga erindi við heimsbyggðina alla. Þetta snýst um frjáls skoðanaskipti og síðan vernd einstaklingsins. Þetta snýst um

Fram hefur komið að þota sé til reiðu í Hong Kong að flytja Snowden burt og þá jafnvel til Íslands. Ólafur Sigurvinsson, stofnandi DataCell, greindi frá því. Í sænska blaðinu Expressen í dag segir hann að þrjár vélar séu til reiðu á þremur flugvöllum í og við Hong Kong, en það sé gert til að villa um fyrir bandarískum stjórnvöldum. Hann segir marga fjármagna þetta.

Fyrirtækið DataCell sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir að fyrirtækið komi ekki nálægt málinu og þekki ekkert til þess. Rangfærslur þar að lútandi hafi verið í fjölmiðlum enda hafi Ólafur verið talsmaður fyrirtækisins og það kunni að skýra misskilning. Ólafur sé hvorki starfsmaður sé hluthafi í DataCell og hafi ekki verið síðan í júní á síðasta ári. DataCell fylgist þó grannt með málinu enda sé PRISM, hið rafræna eftirlit NSA, Þjóðaröryggisstofunar Bandaríkjanna, ógn við friðhelgi einstaklingsins.