Vill nýja nefnd um Evrópumálin

10.03.2018 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Formaður Viðreisnar vill að flokkurinn beiti sér fyrir því, að forsætisráðherra skipi þverpólitíska nefnd, til að meta breyttar aðstæður í alþjóðamálum og nýja möguleika til þess að bæta hag almennings, með því að taka ný skref í Evrópusamvinnu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar flutti stefnuræðu sína á landsþingi Viðreisnar sem fram fer í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ um helgina. Hún fór meðal annars yfir hvað Viðreisn hefði áorkað í skammlífri ríkisstjórn og samvinnu Íslands við aðrar þjóðir frá fullveldi. 

„Afstaða Íslands til samvinnu og samstarfs við önnur ríki ræður nú meira um þjóðarhag en nokkru sinni fyrr í sögunni. Þeir eru til sem segja að stjórnmálaflokkur sem gerir mikið úr stefnu sinni í utanríkismálum sé eins máls flokkur. En nú á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld líta þeir sem þannig tala svolítið út eins og álfar úr hól grárrar forneskju. Eða, við gætum sagt að þeir minni helst á staka steina út í einhverjum hádegismóanum.“

Miklar hræringar í alþjóðamálum kölluðu á endurmat á pólitískri og efnahagslegri stöðu Íslands og þátttöku í fjölþjóðasamstarfi og gjaldmiðilsmálin þyrftu að vera með í því endurmati. 

Þorgerður Katrín sagði þjóðina í góðri stöðu með aðild að innri markaði Evrópusambandsins og Schengen. Segja mætti að Ísland væri aðili að Evrópusambandinu að tveimur þriðju hlutum eða jafnvel þremur fjórðu. Spurningin snerist því ekki um aðild að samvinnu heldur hvort ætti að stíga feti framar. 

„Í ljósi þeirra víðtæku álitaefna, sem snerta nær öll svið pólitískra viðfangsefna í samtíma okkar, að ég legg til að við sammælumst um það hér að Viðreisn beiti sér fyrir því á Alþingi að forsætisráðherra skipi þverpólitíska nefnd, til þess að leggja mat á nýjar og breyttar aðstæður í alþjóðamálum, nýjar áskoranir fyrir Ísland og nýja möguleika til þess að bæta hag fólksins í landinu, með því að taka nýtt skref í Evrópusamvinnunni.“

Þorgerður Katrín sagði að tími væri til komin að meta málin á nýjan leik, enda hefði margt breyst á þeim rúmu tíu árum síðan síðasta nefnd hafi metið stöðuna. 

„Þó að stjórnarflokkarnir hafi samið um hagsmuni kyrrstöðunnar er ég sannfærð um að hún er ekki svo heillum horfin að bregða fæti fyrir að þessi stóru álitamál verði sett í málefnalegan farveg af þessu tagi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Auk fána Viðreisnar blakta Regnbogafáninn og Evrópusambandsfáninn við hún.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi