Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vill ljúka rannsókn sem fyrst

25.01.2012 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að ljúka þurfi rannsókn hið fyrsta á máli mannanna fjögurra sem handteknir voru í janúar 2010 vegna gruns um gjaldeyrisbrask fyrir milljarða króna.

Hæstiréttur felldi í dag úr gildi kyrrsetningu á eigum þeirra, þar á meðal innistæðum á bankareikningum í Svíþjóð til að tryggja kröfur upp á 400 milljónir króna. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og boðað var til sérstaks blaðamannafundar í tilefni þess að mennirnir voru handteknir og húsleit gerð á nokkrum stöðum.

 „Þetta er eitt af þeim málum sem við fengum á okkar borð þegar efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra var sameinuð embættinu í haust,“ segir Ólafur.  „Við höfum bætt við mannafla í þessa rannsókn og hún stendur enn þá,“ segir hann; talsverð vinna sé eftir, en ekki sé hægt að segja til um hvenær rannsókninni ljúki.

Um tuttugu mál af þessu tagi eru nú til rannsóknar og Ólafur segir að þetta umrædda mál sé það stærsta. Hann segir að nú verði yfirvöld að skoða niðurstöðu Hæstaréttar og vinna eftir þeim ábendingum sem þar er að finna.