Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill líka fjárfesta í íslenskum auðlindum

25.07.2016 - 20:17
Mynd:  / 
Hollenskt fyrirtæki, sem ætlar að fjármagna einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, vill líka fjárfesta í íslenskum auðlindum, samkvæmt vef fyrirtækisins. Dótturfyrirtæki þess á Íslandi er til húsa hjá vélaverkstæði í Hafnarfirði.

Áætlanir fjárfesta, um að reisa einkasjúkrahús álíka dýrt nýjum Landspítala í Mosfellsbæ, hafa vakið mikla athygli, eftir að bæjarstjórinn samdi við þá fyrir helgi um að úthluta þeim lóð undir sjúkrahúsið. Aðalforsvarsmaður fjárfestingarinnar, Hollendingurinn Henri Middeldorp, fer fyrir íslensku fyrirtæki, sem forsvarsmenn segja vera að mestu í eigu hollensks félags, Burbanks Holding, en Gunnar Ármannsson lögmaður og íslenskt vélaverkstæði eigi 1% hvor.

Í samkomulagi, sem Mosfellsbær og forsvarsmaður fjárfestanna undirrituðu, kemur fram að fyrirtækið sem fær lóðina, MCPB ehf., sé til heimilis að Melabraut í Hafnarfirði, í sama húsi og VHE vélaverkstæði, sem áður hét Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. Framkvæmdastjóri VHE vildi í símtali í dag ekki staðfesta upplýsingar þess efnis að vélaverkstæðið ætti 1% í fjárfestingunni.

Þegar fréttamaður spurði í afgreiðslu vélaverkstæðisins hvort MCPB hefði skrifstofur þar var kallað í áðurnefndan lögmann, Gunnar Ármannsson, sem hefur þar skrifstofu sem innanhússlögmaður vélaverkstæðisins, og segist koma að sjúkrahúsfjárfestingunni sem starfsmaður þess og fjárfestir.

Á vefsíðu hollenska félagsins Burbanks Holding, sem virðist vera meginfjárfestirinn,  eru takmarkaðar upplýsingar um starfsemi þess, en þar er tengill inn á vef annars hollensks félags, Burbanks Capital, sem fjárfestarnir segja að sé í fullri eigu Burbanks Holding, og komi til með að fjármagna einkasjúkrahúsið með láni til Íslands.

Á vef Burbanks Capital eru vísanir í Ísland fyrirferðarmiklar. Nokkur fjárfestingarverkefni eru þar talin upp fyrir utan heilbrigðisþjónustu. Eitt er nýting á ferskvatni. Þar er íslenska vatnið sagt vera það besta í heimi, á Íslandi sé nóg af ókeypis drykkjarvatni. Þá er talin upp fjárfesting í sjálfbærri orku og Ísland nokkrum sinnum nefnt á nafn, og sagt að fyrirtækið hafi samið við bandaríska fyrirtækið Silicor Materials sem áformar að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Að lokum er tengill inn á þriðju vefsíðuna þar sem lýst er fjárfestingum í fasteignum við Norðurbakka í Hafnarfirði undir merkjum MCPB Real Estate, sem er sagt vera vörumerki á vegum MCPB ehf., félagsins sem ætlar að reisa sjúkrahúsið.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV