Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill leggja fram vantrauststillögu á Sigmund

21.03.2016 - 08:17
Mynd með færslu
Forsætisráðherra í þingsal í dag, þar sem hann mælti fyrir frumvarpi um menningarminjar. Mynd: RÚV
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir enga ákvörðun hafa verið tekna innan þingflokksins um hvort lögð verði fram vantrauststillaga á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, vegna Wintris-málsins svokallaða. Hann segir að menn hljóti þó að íhuga það. Sjálfur er hann þeirrar skoðunar að leggja eigi slíka tillögu fram.

„Það er komin upp sú staða að við erum með forsætisráðherra í landinu - að á meðan þjóðin er í gjaldeyrishöftum - sem hefur sinn varaforða erlendis. Sem talar fyrir gjaldmiðli fyrir alla þjóðina og segir hann bestan í heimi en er síðan með eigur í erlendum gjaldmiðli. Og býr síðan til einhvern skrípaleik að þetta séu ekki hans peningalegu hagsmunir heldur konu hans og það veit allt venjulegt fólk að þannig er það ekki,“ sagði Róbert Marshall í Morgunútvarpi Rásar 2.

 

Forsætisráðherra hefur enn ekki orðið við ítrekuðum beiðnum um viðtal, og ekki heldur svarað skriflegum fyrirspurnum fréttastofu vegna málsins. Málið hefur valdið titringi innan Sjálfstæðisflokksins, og þingmenn hans eru tregir til að tjá sig um málið opinberlega.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði óhugsandi að forsætisráðherra sitji áfram í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komi. Róbert segir það sína skoðun að leggja eigi fram slíka vantrauststillögu. Þingflokkurinn hafi ekki tekið neina ákvörðun um slíkt, hann hafi ekki fundað en þetta hafi verið rætt á milli manna.  „En mér finnst að við eigum að gera það.“

 

Mynd: Björt framtíð / Björt framtíð