Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill kosningar í september

19.05.2019 - 16:03
Mynd með færslu
Alexander van der Bellen, forseti Austurríkis. Mynd: EPA
Forseti Austurríkis Alexander Van der Bellen vill að kosið verði til þings í landinu í september. Sebastian Kurz kanslari og formaður Þjóðarflokksins fór þess á leit við hann í gær að boðað verði til kosninga vegna hneykslismáls sem fellt hefur ríkisstjórn flokks hans og hægriöfgamanna í Frelsisflokknum.

„Ég vil halda kosningar snemma í september, í byrjun mánaðarins ef það er mögulegt,“ sagði forsetinn á fundi með blaðamönnum í dag. Fram undan er frekara fundarhald með leiðtogum stjórnmálaflokka landsins til að finna heppilega dagsetningu.

Á föstudaginn var birt myndbrot í þýskum fjölmiðlum þar sem Heinz-Christian Strache, þá formaður Frelsisflokksins, virtist tjá meintum fulltrúa rússnesks auðjöfurs að Rússinn gæti keypt slúðurblaðið Kronen Zeitung og gert ritstjórnarstefnu þess hliðholla flokki sínum. Auk þess bauð Strache honum ábótasama verktakasamninga ef viðskiptajöfurinn fjármagnaði Frelsisflokkinn með ólögmætum hætti.

Strache sagði af sér embætti varakanslara í gær sem og formennsku Frelsisflokksins. Hann viðurkenndi að hafa hagað sér með „heimskulegum“ og „óábyrgum“ hætti en vildi einnig meina að þetta hafi verið úthugsuð pólitísk árás.

Mynd með færslu
Johann Gudenus, ónefnd rússnesk kona og Heinz-Christian Strache. Mynd: Der Spiegel
Skjáskot úr myndbandinu. Frá vinstri Johann Gudenus, rússnesk konan og Strache.
epa07580317 Austria's Vice-Chancellor Heinz Christian Strache (C) of the Austrian Freedom Party (FPOe) gives a statement to journalists as Interior Minister Herbert Kickl (L) and Foreign Minister Karin Kneissl (R) listen in the Ministry of Public Service and Sport in Vienna, Austria, 18 May 2019. Austrian Vice Chancellor Strache on 18 May 2019 said he will step down from his post as media caught the far-right FPOe's leader Strache in a corruption allegations scandal. German media have on 17 May 2019 published a secretly recorded video of Strache in Ibiza in July 2017, where Heinz-Christian Strache is claimed to meet an alleged niece of a unknown Russian oligarch who wanted to invest large sums of money in Austria.  EPA-EFE/FLORIAN WIESER
 Mynd: EPA
Frá blaðamannafundi þar sem Strache tilkynnti afsögn sína.

Kurz tjáði sig um málið í gær. „Eftir birtingu myndbandsins verð ég að segja að nú er komið nóg,“ sagði kanslarinn. „Hið alvarlega í málinu er viðhorfið gagnvart misbeitingu valds, hvernig farið er með fé skattborgara, gagnvart fjölmiðlum í landinu.“ Auk þess sagði hann að þetta hafi verið persónuleg móðgun.

Þjóðarflokkurinn og Frelsisflokkurinn mynduðu samsteypustjórn í desember 2017.

Herbert Kickl, Frelsisflokki, birti í dag harðorða færslu á Facebook þar sem hann sagði Kurz einan bera ábyrgð á falli stjórnarinnar. Athygli vekur að Johann Gudenus, sem brá fyrir í umræddu myndbandi, líkaði hún.

Mótmælt var í Vínarborg í gær vegna málsins. Rússneski þingmaðurinn Oleg Morozov lýsti því yfir í dag að málið tengdist landi hans ekki með nokkrum hætti.