Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vill Karl Axelsson í Hæstarétt

23.09.2015 - 19:24
Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Dómnefnd telur Karl Axelsson hæstaréttarlögmann hæfari til setu í Hæstarétti en Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldi Einarsdóttur, þó menntun þeirra og reynsla af dómarastörfum sé mun meiri. Reynsla Karls í stjórnsýslu- og lögmannsstörfum var þó meiri og vó þyngra í mati dómnefndar.

Kastljós hefur undir höndum umsögn dómnefndar sem dagsett er í gær.

Auglýst var eftir stöðu hæstaréttardómara í júlí síðastliðnum. Þrír umsækjendur voru um stöðuna og þóttu allir hæfir til að gegna embættinu. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og settur dómari við Hæstarétt, Davíð Þór Björgvinsson, doktor í lögum og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu auk Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns.

Sérstök dómnefnd hefur svo það hlutverk að fara yfir umsóknirnar og gera tillögu til ráðherra um skipan dómara. Formaður nefndarinnar er Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi hæstaréttardómari. Tveir nefndarmanna eru tilnefndir af Hæstarétti, þriðji nefndarmaðurinn af dómstólaráði og sá fjórði af Lögmannafélagi Íslands. Fimmti nefndarmaðurinn skal svo kosinn af Alþingi. 

Bindandi álit nefndarinnar

Samkvæmt breytingu sem gerð var á skipan dómara árið 2010 ber ráðherra að skipa í dómaraembætti umsækjanda sem dómnefndin hefur talið hæfastan meðal þeirra sem sóttu um embættið, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má ráðherra þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu hans um að skipa í embættið annan umsækjanda sem fullnægir lágmarksskilyrðum til að gegna því. Því verður að teljast ólíklegt annað en að Karl Axelsson verði dómari við Hæstarétt.

Karl minnst menntaður

Í umsögn dómnefndarinnar sem Kastljós hefur undir höndum kemur fram að Davíð Þór hafi skorað hæst þegar menntun umsækjenda var skoðuð, Ingveldur var önnur en Karl lægstur. Davíð Þór er enda með meistaragráðu frá Duke háskóla og doktorspróf frá háskólanum í Strassborg. Ingveldur hefur auk embættisprófs í lögum, próf í umhverfisrétti. Karl hefur ekki lokið námi umfram embættispróf sitt í lögum.

Ingveldur reynslumesti dómarinn

Hvað varðar reynslu af dómarastörfum var reynsla Ingveldar talinn vega þyngra en Davíðs Þórs, og þeirra tveggja talsvert meiri en Karls. Karl hefur sem fyrr segir setið sem settur dómari við Hæstarétt um átta mánaða skeið. Auk sæti í félagsdómi í einu máli og tvívegis verið settur héraðsdómari. Ingveldur hefur hins vegar verið settur hæstaréttardómari í tvö og hálft ár og þar á undan verið dómari við héraðsdóm í 14 ár, hluta tímans dómstjóri við dóminn. Davíð Þór Björgvinsson á hins vegar að baki níu ára starf sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og aðstoðarmaður dómara við EFTA dómstólinn í tæp sjö ár.

Mannréttindadómstóll hafði minna vægi

Reynsla Davíðs sem dómara við Mannréttindadómstólsins er hins vegar metin þannig af dómnefndinni, að þar sé um að ræða dómstól á ákveðnu sviði þar sem reglur mannréttindasáttmálans séu viðfangsefnið og túlkun þeirra með hliðsjón af landsrétti aðildarríkja sáttmálans.

„Starfsviðið þar er því sérstaks eðlis og að sumu leyti þrengra en hjá íslenskum dómstólum, en fyrir þá verður lagður til úrlausnar ágreiningur á öllum sviðum réttarins," segir í umsögninniAf þessum sökum var reynsla Davíðs Þórs af dómsstörfum við Mannréttindadómstólinn ekki lögð að jöfnu við reynslu Ingveldar við íslenska dómstóla, að mati dómnefndar.

Karl mun reynslumeiri lögmaður

Í mati á reynslu umsækjenda af lögmannsstörfum var Karl sagður standa hinum umsækjendunum tveimur mun framar. Karl hafi til dæmis einn umsækjenda lögmannsréttindi í Hæstarétti og reynslu af flutningi á þriðja hundrað mála fyrir réttinum. Ingveldur hafi ekki reynslu af störfum á lögmannsstofu og Davíð Þór litla reynslu.

Reynsla Karls þótti sömuleiðis meiri þegar kom að reynslu af stjórnsýslustörfum. Ingveldur þótti koma næst honum en reynsla Davíðs þótti minnst. Þegar reynsla af fræðistörfum og kennslu var skoðuð, auk reynslu af útgáfu efnis, var Davíð Þór talinn hæfari í báðum flokkum, Karl annar og Ingveldur minnst. Í reynslu af stjórnum þótti Karl skora hæst en ekki var gert upp á milli Ingveldar og Davíðs Þórs sem þóttu bæði hafa lakari reynslu en Karl, sem stýrt hafði Óbyggðanefnd í sextán ár og lögmannsstofunni Lex í átta ár. Davíð og Karl þóttu svo jafnir þegar kom að reynslu af öðrum störfum, en reynsla Ingveldar lakari en þeirra tveggja. Karl og Ingveldur þóttu hafa meiri reynslu af einkamála- og sakamálaréttarfari en Davíð Þór en öll þóttu þau standast skilyrði að öðru leyti.

Reynsla karlanna sögð fjölþættari

Í niðurstöðu dómnefndarinnar segir að þó reynsla Ingveldar af dómarastörfum sé að mati nefndarinnar meiri en Karls og Davíðs Þórs, standi þeir henni þó „skrefi framar að því leyti að þeir hafa fjölþættari reynslu að baki með tilliti til margra annarra atriða.“ Og jafnvel þó reynsla Davíðs Þórs af dómarastörfum sé mun meiri en Karls sé það hins vegar niðurstaða dómnefndarinnar að Karl standi Davíð Þór framar þegar kemur að lögmannsstörfum og setu í mikilvægum úrskurðarnefndum. 

Karl Axelsson sé því hæfastur umsækjendanna þriggja til að hljóta skipun hæstaréttardómara og nefndin geri ekki upp á milli hinna umsækjendanna tveggja.