Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill kæra Trump fyrir brot í starfi

Democratic presidential candidate Sen. Elizabeth Warren, D-Mass., speaks during an campaign rally Wednesday, April 17, 2019, in Salt Lake City. (AP Photo/Rick Bowmer)
 Mynd: AP
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrata á Bandaríkjaþingi, kallar eftir því að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, verði kærður fyrir brot í embætti vegna þess sem fram kemur í skýrslu Roberts Muellers um rannsókn hans á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016. Þar má meðal annars lesa að Trump hafi minnst tíu sinnum freistað þess að hafa bein áhrif á gang rannsóknarinnar.

Warren birti kröfu sína á Twitter. Hún segir skýrslu Muellers sýna að óvinveitt, erlend ríkisstjórn hafi „gert árás“ á kosningarnar 2016 til að hjálpa Trump og að Trump hafi tekið þeirri hjálp opnum örmum. Eftir að hann hlaut kosningu hafi hann svo hindrað rannsóknina á þessari árás.

Mueller hefur nú falið þinginu að taka við keflinu, segir Warren. Þingið hafi vald til að hindra forseta í að misbeita sínu valdi, og verja þannig dómskerfið í landinu. Rétta aðferðin til að beita þessu valdi þingsins, segir Warren, er að kæra forsetann fyrir brot í embætti.

Warren sækist eftir að verða frambjóðandi Demókrata í næstu forsetakosningum. Hún er sú fyrsta úr hópi frambjóðenda í forvali flokksins sem kallar eftir því að Trump verði kærður, en fastlega er reiknað með að fleiri í þeim hópi muni gera hið sama.