Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vill íbúðalánakerfi að danskri fyrirmynd

07.02.2013 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþýðusambandið vill taka upp nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að kerfið dreifi ábyrgðinni á milli lántakenda og fjármagnseigenda.

Gylfi segir að almenningur sé orðinn þreyttur á því eftir hrun að vandanum sé sífellt velt yfir á heimilin. Því hafi verið leitað leiða þar sem ábyrgðin sé jöfn á milli lántakenda og fjármagnseigenda. Niðurstaðan sé sú að danska kerfið sé best. Það hafi staðið af sér kreppur og stríð í 200 ár og enginn pólitískur ágreiningur um það í Danmörku.

„Kerfið gengur út á að lántakandi gefi út veðskuldabréf með veði í fasteigninni sem hann ætlar að kaupa,“ segir Gylfi. „Húsnæðislánastofnun leitar fjárfesta og gefur út skráð skuldabréf. Fjárfestar kaupa þessi skráðu skuldabréf og húsnæðislánastofnunin greiðir andvirði lánsins til fasteignakaupandans. Hann greiðir síðan afborganir með vöxtum til húsnæðislánastofnunarinnar sem greiðir hana áfram til fjárfesta.“

Gylfi segir að helsti ávinningur kerfisins sé að fasteignakaupendum bjóðist að taka óverðtryggð nafnvaxtalán með nokkuð föstum vöxtum til langs tíma. „Við erum auðvitað orðin langþreytt á því að það sé lausnarorðið í gegnum verðtrygginguna að færa þennan vanda yfir á heimilin. Þess vegna er kallað eftir því að fá annað fyrirkomulag sem tryggir það að ábyrgð á svona aðstæðum verði jafnað á milli lántakenda og fjármagnseigeinda. Danska kerfið býður upp á það,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.