Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill hindra að ógilding eldisleyfa valdi tjóni

01.10.2018 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Sjávarútvegsráðherra segir mikilvægt að leita allra leiða til þess að rekstur, fyrirtæki og samfélög á Vestfjörðum verði ekki fyrir tjóni vegna ógildingar rekstrarleyfis fyrir 17.500 tonna laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum en segir úrskurðinn kalla á endurskoðun leyfismála frá grunni.

Vill ekki að samfélag og fyrirtæki verði fyrir tjóni

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í síðustu viku rekstrarleyfi Matvælastofnunar fyrir 17.500 tonna laxeldi fyrirtækjanna Arctic Fish og Arnarlax, áður Fjarðarlax, vegna annmarka í umhverfismati en ekki var gerð grein fyrir öðrum valkostum í umhverfismati en sjókvíaeldi með frjóum laxi af norskum uppruna. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir málið hafa verið rætt á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn og skýr vilji komið fram til að raska ekki áformum á Vestfjörðum. „Það sem að í mínum huga er mikilvægt er bara að leita allra leiða til þess að komast hjá því að  reksturinn, fyrirtækin og samfélögin verði fyrir einhverju tjóni á grundvelli þessa úrskurðar sem að þarna liggur fyrir. Ég bind allar vonir við það að við getum skipað málum með þeim hætti að það sé hægt að forða frá slíku tjóni,“ segir Kristján Þór.  

Málið í forgangi hjá Matvælastofnun

Matvælastofnun, sem veitti rekstrarleyfið, heyrir undir Atvinnuvegaráðuneytið. Kristján segir að málið hafi verið sett í forgang hjá stofnuninni. Þá skoði Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun sína aðkomu að málinu en þær heyra undir Umhverfisráðuneytið. Kristján Þór segir næstu skref felast í því að leita leiða til að starfsemi fyrirtækjanna geti gengið eðlilega fyrir sig.

Telur úrskurðinn hafa áhrif á endurskoðun laga

En hefur þessi úrskurður enga þýðingu? – „Jú, að sjálfsögðu mun hann gera það. Og kallar á það að það þarf að fara yfir allt þetta ferli frá grunni.“  Atvinnuvegaráðuneytið skoðar nú lög um fiskeldi og umhverfisráðuneytið lög um umhverfismat: „Að sjálfsögðu kemur þessi úrskurður með einhverjum hætti til umfjöllunar og umræðu í þeirri vinnu sem er þar framundan.“