Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill heildarendurskoðun á skipan lögreglumála

08.09.2019 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ríkislögreglustjóri telur að tímabært sé að hugað verði að framtíðarskipan lögreglu og skynsamlegt væri að stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda myndi beinast að heildarendurskoðun lögreglumála í landinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra. Þar er jafnframt lýst furðu vegna yfirlýsingar frá Landssambandi lögreglumanna i gær.

Í yfirlýsingu Landssambands lögreglumanna sagði að mikillar óánægju hafi gætt um langt skeið meðal lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra. „Óánægja þessi er meðal annars til komin vegna fatamála lögreglumanna sem hafa verið í ólestri en einnig vegna annarra mála svo sem bílamála,“ sagði í yfirlýsingunni.  

Embætti ríkislögreglustjóra segir Landssamband lögreglumanna ekki hafa haft neitt samband við ríkislögreglustjóra til að ræða áhyggjur af þessu. „Landsamband lögreglumanna á fulltrúa bæði í fata- og búnaðarnefnd og bílanefnd embættisins og hefur formaðurinn meðal annara sjálfur setið í þeim. Fulltrúi landssambandsins hefur unnið með embættinu að útboði á einkennisfatnaði fyrir lögreglumenn sem birtast mun innan skamms,“ segir í yfirlýsingu frá ríkislögreglustjóra.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV