Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vill hætta að friða 100 ára hús sjálfkrafa

22.09.2015 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Hætt verður að friða hús sjálfkrafa þegar þau verða 100 ára, ef tillaga forsætisráðherra verður að lögum. Formaður húsafriðunarnefndar segir að sum hús, sem nú verða sjálfkrafa friðuð, eigi það jafnvel ekki skilið.

Þriggja ára gömul regla afnumin
Áratugum saman var í gildi sú regla að hús, sem voru byggð fyrir 1840, voru sjálfkrafa friðuð. Auk þess var hægt að friða nýrri hús sérstaklega. Með nýjum lögum 2012 var tekin upp sú regla að hús verða sjálfkrafa friðuð þegar þau verða aldargömul. Í tillögu að frumvarpi forsætisráðherra, um breytingu á lögum um menningarminjar, er lagt til að 100 ára reglan verði afnumin en í staðinn verði framvegis öll hús, sem eru byggð fyrir 1915, sjálfkrafa friðuð.

„Vel viðeigandi“ að miða við 1915
Magnús Skúlason, formaður húsafriðunarnefndar, segir að þetta sé til bóta. „Ég tel það vera mjög viðeigandi að hætta þessari hlaupandi tölu, þ.e.a.s. 100 ára reglunni,“ segir hann. Það sé nefndinni og Minjastofnun ofviða að taka við svona mörgum friðuðum húsum sem eigi jafnvel ekki skilið að vera friðuð. „Það þarf að vinsa þar úr ennþá meira. 1915-reglan er vel viðeigandi vegna þess að þá lýkur timburhúsaöld í Reykjavík, og við tekur svona steinsteypuöldin, og það gildir nú fyrir allt landið reyndar.“

Magnús segir að núgildandi lög veiti þeim húsum, sem þykja merkileg og verða 100 ára á næstu árum, nú þegar næga vernd. „Hús, sem eru byggð fyrir 1925, þau falla undir þá reglu að leita skal álits Minjastofnunar ef það þarf að breyta þeim, rífa eða flytja.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV