Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vill hækka skatt á ferðaþjónustu

21.08.2014 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill hækka skatt á hótel- og gistiþjónustu og afnema undanþágur í ferðaþjónustunni frá greiðslu virðisaukaskatts. Ekki sé hægt að réttlæta að undanþágur frá virðisaukaskatti í ferðaþjónustu, á sama tíma og hækka eigi matarskatt.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa gagnrýnt hugmyndir um að hækka virðisaukaskatt á matvöru, sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins setti fram um helgina. Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra og framsóknarkona, skrifaði á bloggsíðu sína í gær að skattabreytingar mættu ekki bitna á þeim sem lægstar tekjur hafa. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifaði á Facebook-síðu sína í morgun að á sama tíma og skattahækkanir á matvæli séu boðaðar, bóli ekkert á að ferðaþjónustan og aðilar tengdir henni borgi sitt.

Endurskoða ársgamla ákvörðun

Síðasta sumar samþykkti nýr þingmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að falla frá ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu úr 7% í 14%. Karl segir að nú sé tímabært að endurskoða þessa ákvörðun.

„Það sem skiptir mestu máli líka er að ná inn í virðisaukaskattinn öllum þeim sem eru undanþegnir þessari greiðslu. Og það eru fjölmargir aðilar sem tengjast ferðaþjónustu sem borga engan virðisaukaskatt. Það er ekki hægt að réttlæta það að það haldi áfram á sama tíma og við ætlum að hækka matarskatt.“ Segir Karl. Hann telur þó að það hafi ekki verið rangt að hætta við að hækka skattinn í fyrra.

„Það var ekki rangt á sínum tíma vegna þess að það komu náttúrulega fram mikil mótmæli frá ferðaþjónustunni vegna þess að þeim þótti þetta of bratt, vegna þess að þeir voru búnir að selja sína þjónustu langt fram í tímann. Og ég hef alveg skilning á því. Og þess vegna vil ég að þetta verði hækkað, en það verði gert í þrepum.“

Fylgi við hugmyndir, sérstaklega innan Framsóknarflokksins

Karl segir hægt að ná inn miklum tekjum með því að hækka skatt og afnema undanþágur í ferðaþjónustu. Hann segist ætla að bíða fjárlagafrumvarpsins til að sjá hvernig skattamálum verði hagað en telur sjálfur algerlega nauðsynlegt að þessar breytingar verði í fjárlagafrumvarpinu. Þessar hugmyndir njóti fylgis, sérstaklega meðal þingmanna Framsóknarflokksins.

„Ég held að þær njóti fylgis í ákveðnum hópi þingmanna stjórnarliðsins og sérstaklega innan Framsóknarflokksins. Ég tel það.“ Segir Karl.