Vill griðasvæði fyrir Róhingja undir vernd SÞ

22.09.2017 - 01:56
epa06213258 A Rohingya refugee child of Myanmar, sits outside a building on the outskirts of Srinagar, the summer capital of Indian Kashmir, 19 September 2017. The Myanmar military has been under increased international scrutiny due to the refugee crisis
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Forsætisráðherra Bangladess fór þess á leit í kvöld, að Sameinuðu þjóðirnar komi upp sérstökum griðasvæðum í Rakhinehéraði í Mjanmar, þar sem Róhingjar geti átt öruggt skjól. Um 420.000 Róhingjar hafa flúið frá Rakhine til Bangladess á síðustu vikum. Þar með eru flóttamenn úr þeirra röðum orðnir ríflega 800.000 í Bangladess.

Forsætisráðherrann, Sheikh Hasina Wazed, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Sagði hún nauðsynlegt að flóttafólkið geti snúið aftur til síns heima hið fyrsta, óhrætt, öruggt og með reisn.

Fólkið flýr blóðug átök sem brutust út þegar uppreisnarmenn úr röðum Róhingja réðust að tugum landamærastöðva hinn 25. ágúst síðastliðinn. Í framhaldinu hefur stjórnarherinn farið fram af svo mikilli hörku og ákefð gegn Róhingjum, vopnuðum jafnt sem óvopnuðum, að því hefur verið líkt við þjóðernishreinsanir.

Segir jarðsprengjum hafa verið komið fyrir við landamærin

Í ræðu sinni sakaði Hasina stjórnvöld og her í Mjanmar um að leggja jarðsprengjur meðfram landamærum ríkjanna til að hindra Róhingja í að snúa aftur til síns heima og sagði Sameinuðu þjóðirnar verða að grípa til tafarlausra aðgerða til að leysa úr brýnum vanda hins ofsótta minnihlutahóps. Útlistaði hún áætlun í fimm liðum, sem hún taldi geta dugað. Þar voru griðasvæði í Rakhine-héraði undir stjórn og vernd Sameinuðu þjóðanna lykilatriði. Slík griðasvæði verða því aðeins að veruleika, að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna leggi blessun sína yfir þau.

Hasine segir að eftir þessa síðustu bylgju flóttafólks séu nú yfir 800.000 Róhingjar frá Rakhine-héraði í Bangladess. Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar lýst framgöngu stjórnvalda og hers Mjanmar gagnvart Róhingjum sem þjóðernishreinsunum og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, gekk enn lengra þegar hann sagði þetta þjóðarmorð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi